- Auglýsing -

Molakaffi: Janus, Ýmir, Arnór, Daníel, Arnar, Alexander, Bjarni, Mikkjalsson

Janus Daði Smárason landsliðsmaður og leikmaður Göppingen. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Janus Daði Smárason og félagar í Göppingen styrktu stöðu sína í fimmta sæti þýsku 1. deildarinnar í gærkvöld með stórsigri á GWD Minden, 33:22, á heimavelli. Fimmta sætið gefur þátttökurétt í Evrópukeppni á næsta keppnistímabili. Janus Daði skoraði eitt mark og átti tvær stoðsendingar. 
  • Leipzig, sem er í keppni við Göppingen um fimmta sætið, tapaði fyrir Rhein-Neckar Löwen á heimavelli. 31:28. Göppingen er þremur stigum á undan Leipzig. Ýmir Örn Gíslason var ekki í leikmannahópi Löwen í leiknum í gær. 
  • Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu þegar Bergischer HC vann Balingen, 29:21, á heimavelli í gær í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Bergischer er í 11. sæti.  Daníel Þór Ingason var markahæstur hjá Balingen með sex mörk og var einu sinni vísað af leikvelli. Balingen er í þriðja neðsta sæti þegar sex umferðir eru eftir af deildarkeppninni.
  • Arnar Freyr Arnarsson skoraði tvö mörk fyrir vængbrotið lið Melsungen er það tapaði naumlega fyrir HC Erlangen, 32:31, í Nürnberg í gærkvöld. Alexander Petersson skoraði ekki mark fyrir Melsungen. Elvar Örn Jónsson er meiddur og leikur ekki með liðinu næstu mánuði. Melsungen er í áttunda sæti. 
  • Aðalsteinn Eyjólfsson og liðsmenn hans í Kadetten Schaffhausen vantar einn vinning til viðbótar til þess að komast í undanúrslitum í úrslitakeppninni í svissnesku A-deildinni eftir sigur á Bern, 40:28, í þriðja leik liðanna í Schaffhausen í gær. Kadetten er með tvo vinninga en Bern einn. Næsti leikur verður í Bern á laugardaginn. 
  • Bjarni Ófeigur Valdimarsson og samherjar hans í Skövde unnu Kristianstad, 41:40, framlengdan leik og vítakeppni á heimavelli í fyrstu viðureign liðanna í undanúrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik.  Bjarni Ófeigur skoraði þrjú mörk. Næst eigast liðin við í Kristianstad á mánudaginn. 
  • Færeyingurinn Pætur Mikkjalsson sem lék með KA frá hausti til áramóta á síðasta ári hefur samið til eins árs við sænska 1. deildarliðið AMO HK. Eftir að Mikkjalsson kvaddi KA í byrjun árs gekk hann til liðs við H71 í heimalandi sínu og varð bæði færeyskur landsmeistari og bikarmeistari í vor. 
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -