- Auglýsing -
- Handknattleiksmaðurinn efnilegi, Juri Knorr, hefur samið við Rhein-Neckar Löwen frá og með næsta keppnistímabili. Knorr stendur á tvítugu og hefur undanfarin tvö ár leikið með GWD Minden eftir að hafa verið í ár þar á undan í herbúðum Barcelona og m.a. leikið með B-liði félagsins. Knorr er í þýska landsliðinu sem tekur þátt í HM í handknattleik í Egyptalandi sem hefst upp úr miðjum janúar.
- Yfirvöld í Egyptalandi hafa ákveðið að íþróttahöllin í 6.október hluta Kaíró, sem er í nálægð Giza-sléttunnar þar sem pýramídarnir eru m.a. verði hér eftir nefnd íþróttahöll Hassan Moustafa. Vilja yfirvöld í Egyptalandi þannig heiðra forseta Alþjóða handknattleikssambandsins, Egyptann Hassan Moustafa, fyrir starf sitt í þágu íþrótta í landinu. Hassan Moustafa íþróttahöllin verður einn leikstaða á HM í handknattleik karla í næsta mánuði.
- Ennfremur kemur fram í tilkynningu frá skipuleggjendum heimsmeistaramótsins að miðasala á leiki HM fer af stað í vikunni. Um leið verður ýtt úr vör markaðsherferð vegna mótsins á strætum og torgum auk vinsælla ferðamannastaða í Kaíró og Alexandríu en hluti mótsins fer fram í síðastanefndu borginni auk höfuðborgarinnar.
- Harald Reinkind og Sandor Sagosen urðu Evrópumeistarar í handknattleik í gærkvöld með Kiel. Aðeins einn Norðmaður af karlkyni hafði áður verið í sigurliði í Meistaradeild Evrópu. Það er Børge Lund sem var í liði Kiel sem vann keppnina fyrir áratug.
- Hendrik Pekeler, leikmaður Kiel, var valinn besti maður úrslitaleikja Meistaradeildarinnar 2020 sem lauk í gærkvöld.
- Auglýsing -