- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Met Dana, skipulagsfundur, Solberg, Arnar, Elvar, Ágúst, Rosta

Danir eru ríkjandi heimsmeistarar í handknattleik karla. Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Danska landsliðið hefur nú leikið 27 leiki í röð á heimsmeistaramóti karla í handknattleik án þess að tapa leik, tveimur fleiri en nokkurt annað landslið í sögunni. Frakkar léku 25 leiki í röð án taps á heimsmeistaramótum frá 2015 til 2019. Svo vill til að Frakkar og Danir mætast í úrslitaleik HM annað kvöld í Stokkhólmi. Flautað verður til leiks klukkan 20.
  • Per Bertelsen formaður mótanefndar Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, sagði í samtali við danska fjölmiðla fyrir helgina að stjórn IHF ætlaði að funda í dag og fara yfir framtíðarskipulag heimsmeistaramóta sem haldin eru í tveimur löndum á sama tíma. Mikil gagnrýni hefur verið á að danska landsliðið hafi farið frá Stokkhólmi til Gdansk til að leika undanúrslitaleik HM í gær og fari aftur til baka í dag til að leika úrslitaleikinn í Stokkhólmi annað kvöld.
  • Eins gagnrýndi Alfreð Gíslason þjálfari þýska landsliðsins skipulag leikjaniðurröðunar á leikjum átta liða úrslita. Frakkar hafi t.d. fengið aukafrídag umfram hans menn fyrir leikinn í átta liða úrslitum. Tveir sólarhringar hafi liðið frá síðasta leik Frakka í riðlakeppni HM og fram að leik þeirra við Þjóðverja í átta liða úrslitum. Þýska liðið hafi fengið einn dag og hann hafi farið í ferðast á milli borga í Póllandi og koma sér fyrir á nýju hóteli.
  • Bertelsen sagði að erfitt væri að fara bil beggja þegar tvær þjóðir skipuleggja stórmót því báðar vilji þær fá að hýsa eitthvað af stórleikjum mótsins, ekki síst ef þær eiga báðar lið í átta liða úrslitum eða í undanúrslitum mótsins.
  • Glenn Solberg landsliðsþjálfari Evrópumeistara Svía varð efstur í kjöri vefsíðunnar handball-planet á þjálfara ársins 2022. Annar varð Spánverjinn Antonio Ortega þjálfari Evrópumeistara Barcelona og þriðja sætið hreppti Talant Dujshebaev þjálfari Kielce. Bennet Wiegert þjálfari Þýskalandsmeistara Magdeburg og Jordi Ribera landsliðsþjálfari Spánar urðu í fjórða og fimmta sæti. Kjörið náð eingöngu til þjálfara karlaliða.
  • Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði þrjú mörk og Elvar Ásgeirsson eitt mark þegar lið þeirra Ribe Esbjerg steinlá í æfingaleik á móti Skanderborg Aarhus, 38:20, í Ribe Fritidscenter í gær. Ágúst Elí Björgvinsson markvörður lék hluta leiksins í marki Ribe-Esbjerg. Nokkra leikmenn vantaði í Ribe-Esbjerg-liðið. Keppni í dönsku úrvalsdeildinni í karlaflokki hefst eftir viku.
  • Ungverski landsliðsmaðurinn Miklos Rosta gengur til liðs við Dinamo Búkarest í sumar. Línumaðurinn leikur nú með Pick Szeged.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -