- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Møller meiddur, Lugi gefur Evrópuleik, Neagu ekki til Noregs

Lasse Møller í leik með GOG á síðustu leiktíð. Hann skipti yfir til Flensburg í sumar en er kominn á sjúkrlista. Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Danski handknattleikmaðurinn  Lasse Møller, sem gekk til liðs við Flensburg í sumar er meiddur á handlegg og verður frá keppni í “nokkra mánuði” eins og segir í tilkynningu frá Flensburg. Møller meiddist í sínum fyrsta leik fyrir liðið um síðustu helgi. Hugsanlegt er jafnvel talið að hann geti ekki gefið kost á sér í danska landsliðið fyrir HM í Egyptalandi. Møller, sem er alinn upp hjá GOG, varð einnig af þátttöku á EM í byrjun þessar árs vegna tognunar í liðböndum í ökkla. Ekki hefur komið nákvæmlega fram hvað amar að Møller um þessar mundir fyrir utan að það er eitthvað sem hefur bilað í öðrum handleggnum.
  • Sænska kvennaliðið Lugi, sem Hafdís Renötudóttir landsliðsmarkvörður hefur samið við, verður sennilega að gefa leik sinn við Kuban Krasnodar í EHF-bikarnum sem fram á að fara í Svíþjóð um helgina. Mjög strangar reglur ríkja um komu Rússa til Svíþjóðar um þessar mundir vegna kórónuveirunnar sem gerir komu rússenska liðsins til landsins nær ómögulega, a.m.k. með skömmum fyrirvara. 
  • Ekki kemur heldur til greina að leika báða leikina í Krasnodar þar sem sænska utanríkisráðaneytið mælir gegn ferðum Svía til suðvestur hluta Rússlands.
  • Esbjerg, sem Rut Arnfjörð Jónsdóttir leikmaður KA/Þórs lék með í tvö ár áður en hún flutti heim í sumar,  heldur áfram sigurgöngu sinni í úrvalsdeild danska kvennahandboltans en keppni hófst á ný í gærkvöldi eftir landsliðshlé. Esbjerg vann bikarmeistara Herning-Ikast, 36:33, og er með fullt hús stiga, 14, eftir sjö leiki. Meðal annarra úrslita í deildinni í gærkvöld má nefna að Randers vann óvæntan sigur á København Håndbold, í Kaupmannahöfn, 29:26. 
  • Sænska karlalandsliðið í handknattleik á að mæta Kósóvó í fyrstu umferð riðlakeppni EM í handknattleik í byrjun nóvember á útivelli. Vegna talsverðrar útbreiðslu kórónuveirunnar í Kósóvó hefur sænska handknattleikssambandið uppi áform um að leikurinn fari fram í Svíþjóð eða þá á hlutlausum velli í Evrópu þar sem minna ber á kórónuveirunni.
  • Ein fremsta handknattleikskona heims, Cristina Neagu, hefur sýkst af kórónuveirunni. Af þeim sökum leikur hún ekki með CSM Bucaresti gegn Vipers í Meistaradeild kvenna í handknattleik á laugardaginn en leikurinn fer fram í Kristiansand. Neagu greindist með veiruna í prófi sem leikmenn Bucaresti gengust undir í fyrradag. Handknattleikssamband Evrópu, EHF, skyldar alla leikmenn sem taka þátt í Evrópumótum félagsliða að gangast undir kórónuveirupróf áður en þeir taka þátt í leikjum á vegum EHF.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -