- Bjarte Myrhol lék sinn síðasta handboltaleik á ferlinum í gær þegar norska landsliðið mætti danska landsliðinu í átta liða úrslitum handknattleikskeppni Ólympíuleikanna og tapaði. Myrhol, sem er 38 ára, tilkynnti í vetur að hann ætlaði að hætta eftir Ólympíuleikana. Hann er leikjahæsti landsliðsmaður Noregs frá upphafi 263 landsleiki. Myrhol fékk aðeins að taka þátt í leiknum í gær í 173 sekúndur og vann eitt vítakast á þeim stutta tíma.
- Magnus Jöndal hætti einnig keppni í handknattleik í gær. Jöndal sem er fimm árum yngri en Myrhol greindi frá því í vetur að hann ætlaði að venda kvæði sínu í kross eftir Ólympíuleikana. Jöndal lék síðast með Flensburg í Þýskalandi.
- Danski handknattleiksmaðurinn og blaðamaðurinn Rasmus Boysen bendir á þá staðreynd á Twitter í gær að dönsku bræðurnir Niklas og Magnus Landin og egypsku bræðurnir Yehia og Seif Eldeira bætist í hóp með fimm öðrum bræðrum sem eiga það sameiginlegt að hafa komist í undanúrslit í handknattleikskeppni Ólympíuleika. Hinir eru Frakkarnir Bertrand og Guillaume Gille, Pólverjarnir Bartosz og Michał Jurecki, Frakkarnir Nikola og Luka Karabatic, Danirnir René og Henrik Toft Hansen og Spánverjarnir Raul og Alberto Entrrerios.
- Sandra Erlingsdóttir og samherjar í EH Aalborg unnu Vendsyssel, 30:28, í fyrsta æfingaleik liðsins fyrir komandi keppnistímabil í dönsku 1. deildinni en bæði lið verða í þeirri deild á næsta vetri. Vendsyssel féll úr úrvalsdeild í vor.
- Gísli Þorgeir Kristjánsson var með á fyrstu æfingu SC Magdeburg í fyrradag eftir að leikmenn liðsins komu úr sumarleyfi og hófu undirbúning fyrir komandi keppnistímabil. Eftir því sem kemur fram á samfélagsíðu félagsins þá vinnur Gísli Þorgeir áfram hörðum höndum að endurhæfingu sinni eftir að hafa gengist undir aðgerð í lok mars eftir að hafa farið úr axlarlið í kappleik. Ómar Ingi Magnússon, markakóngur þýsku 1. deildarinnar, var vitanlega einnig mættur á æfingu liðsins.
- Auglýsing -