- Xavi Pascual hefur verið ráðinn þjálfari rúmenska karlalandsliðsins í handknattleik. Hann stýrði landsliðinu einnig frá 2016 til 2018. Pascual hætti þjálfun Barcelona í vor og tók skömmu síðar við þjálfun rúmenska meistaraliðsins Dinamo Búkarest.
- Sænski handknattleiksmaðurinn Frederik Petersen hefur fengið sig fullsaddan á handknattleik 37 ára gamall. Hann greindi frá þessu í gær og hefur hann þegar verið leystur undan samningi við Kristianstad hvar hann hefur verið síðasta árið. Petersen hefur víða komið við á löngum ferli. Að baki eru 155 landsleikir og silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í London fyrir níu árum. Petersen var m.a. í sigurliði HSV Hamburg í Meistaradeild Evrópu vorið 2013.
- Karlalið ÍR og Fjölnis, sem verða í Grill66-deild karla í handknattleik á komandi leiktíð, mættust í æfingaleik í Egilshöllinni í gærkvöld. ÍR hafði betur, 35:34, í hörkuleik.
- Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar í Kadetten unnu Göppingen, 32:30, á æfingamóti í Schaffhausen í Sviss í gær. Eftir því sem næst verður komist var Janus Daði Smárason í liði Göppingen en hann er að koma til baka eftir axlarmeiðsli.
- Sandra Erlingsdóttir og samherjar í danska liðinu EH Aalborg hófu í gær þátttöku á æfingamóti í Frakklandi. Þær töpuðu fyrir Le Havre, 26:25, í fyrstu umferð.