- Auglýsing -

Molakaffi: Sandra, Harpa, Sunna, Alfreð, H71

Sandra Erlingsdóttir í leik með Metzingen. Mynd/Metzingen
  • Sandra Erlingsdóttir og samherjar í TuS Metzingen unnu stórsigur á TG Nürtingen í annarri umferð þýsku bikarkeppninnar í gær, 38:24.  Leikurinn fór fram í Theodor-Eisenlohr Sporthalle, heimavelli Nürtingen. Metzingen var yfir í hálfleik, 19:10. Liðið er þar með komið áfram í 16-liða úrslit bikarkeppninnar eins og m.a. BSV Sachsen Zwickau, lið annarrar Eyjakonu, Díönu Daggar Magnúsdóttur. Sandra kom lítið við sögu í leiknum í gær og skoraði m.a. ekki. 

  • Harpa Rut Jónsdóttir skoraði eitt mark fyrir GC Amicitia Zürich þegar liðið tapaði naumlega á útivelli fyrir DHB Rotweiss Thun, 32:30, í svissnesku A-deildinni í handknattleik í gær. Sunna Guðrún Pétursdóttir, markvörður, kom ekkert við sögu í leiknum en hún er samherji Hörpu Rutar. GC Amicitia Zürich  er í fjórða sæti deildarinnar. Liðið leikur ekki næst í deildinni fyrr en í lok nóvember vegna hlés sem gert verður vegna þátttöku svissneska landsliðsins á EM sem hefst um næst mánaðarmót. 
  • Íslendingatríóið hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Skara HF hrósaði sigri í gær á heimavelli þegar Skövde kom í heimsókn, 33:29. Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði fjögur mörk fyrir Skara en Ásdís Guðmundsdóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir voru ekki á meðal þeirra sem skoruðu að þessu sinni. Skara HF er í áttunda sæti deildarinnar með fjögur stig eftir fimm leiki. 

  • Þýska landsliðið, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar tapaði fyrir spænska landsliðinu með eins marks mun, 32:31, í Jaen á Spáni í gær í Evrópubikarkeppni landsliða. Í þeirra keppni taka þátt landslið sem þegar eru örugg um keppnisrétt á EM 2024. Kai Häfner skoraði níu mörk fyrir þýska liðið og Johannes Golla var með sex mörk. Ekki lá á lausu í gærkvöld hverjir voru atkvæðamestir í spænska landsliðinu. 
  • Færeyska meistaraliðið H71 komst í gær áfram í 3. umferð Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik. H71 vann Ferlach frá Austurríki öðru sinni, 29:20, í Þórshöfn. H71 vann einnig fyrri viðureignina sem fram fór á föstudagskvöld, 30:23. 
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -