- Sunna Guðrún Pétursdóttir markvörður var ekki í leikmannahópi GC Amicitia Zürich þegar liðið tapaði fyrir Spono Eagles, 42:25, í fyrstu umferð svissnesku úrvalsdeildarinnar í gær. Sunna Guðrún tognaði á ökkla nokkrum dögum fyrir leik og varð að sitja yfir. Hún kom til félagsins í sumar frá KA/Þór. Harpa Rut Jónsdóttir er einnig leikmaður GC Amicitia Zürich. Hún skoraði ekki leiknum í gær en stóð fyrir sínu í vörninni.
- Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í svissneska meistaraliðinu Kadetten unnu öruggan sigur á liði Bern, 35:30, á heimavelli í annarri umferð úrvalsdeildar í gær. Kadetten hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína.
- Lovísa Thompson skoraði eitt mark og átti þrjár stoðsendingar þegar liðið hennar Ringkøbing tapaði fyrir Nykøbing Falster með 12 marka mun á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Þetta var annað tap Ringkøbing í deildarkeppninni sem hófst síðla í síðustu viku.
- Steinunn Hansdóttir skoraði tvö mörk fyrir Skanderborg Håndbold þegar liðið krækti í eitt stig á útivelli í heimsókn til Horsens Håndbold Elite, 24:24, í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Þetta var fyrsta stig Skanderborgarliðsins í deildinni á keppnistímabilinu en það tapaði fyrir Nykøbing í fyrstu umferð í síðustu viku.
- Örn Vésteinsson Östenberg skoraði fjögur mörk þegar Haslum HK tapaði fyrir Kristiansand í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar í gær. Leikurinn fór fram í Kristjánssandi.
- Vegna meiðsla lék Bjarki Már Elísson ekki með Veszprém í gær þegar liðið vann PPD Zagreb, 32:30, í úrslitaleik í SHEA-League, Austur-Evrópudeildin, í Zadar í Króatíu. Eurofarm Pelister lagði Nexe í leik um bronsverðlaunin, 27:23.
- Færeyingurinn Rógvi Dal Christiansen sem lék með Fram frá 2020 og fram á nýliðið vor er nú leikmaður danska 1. deildarliðsins Roskilde Håndbold. Hann skoraði þrjú mörk þegar liðið tapaði fyrir HØJ Elite, 33:23, í fyrstu umferð deildarinnar á föstudaginn.