- Auglýsing -
- Tryggvi Þórisson og samherjar í Sävehof fóru vel af stað í gær gegn IFK Kristianstad í fyrsta úrslitaleik liðanna um sænska meistaratitilinn í handknattleik. Sävehof vann leikinn með fimm marka mun, 34:29, í Kristianstad. Tryggvi skoraði ekki mark í leiknum. Næsti leikur verður í Partille á mánudaginn. Vinna þarf þrjá leiki til þess að verða sænskur meistari.
- Bjarki Már Elísson skoraði þrisvar sinnum fyrir Telekom Veszprém þegar liðið vann CYEB-Budakalász í ungversku 1. deildinni í handknattleik í gær, 34:29, á útivelli. Veszprém er í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir Pick Szeged fyrir lokaumferðina.
- Viktor Gísli Hallgrímsson varði sex skot í marki Nantes í fyrri hálfleik í gær þegar liði vann Créteil, 39:34, á útivelli í frönsku 1. deildinni í handknattleik karla. Nantes er í öðru sæti deildarinnar með 47 stig að loknum 27 leikjum af 30. Montpellier er efst með 48 stig en hefur lagt að baki 28 leiki. PSG er með 46 stig en á tvo leiki inni á Montpellier.
- Sveinn Jóhannsson skoraði tvö mörk fyrir GWD Minden í sjö marka tapi liðsins í heimsókn til Füchse Berlin í gær, 42:35.
- Daninn Hans Lindberg skoraði 12 mörk fyrir Berlínarliðið. Þar með hefur hann bætt markametið í þýsku 1. deildinni sem Suður Kóreumaðurinn Kyung-Shin Yoon átti. Lindberg hefur skorað 2.907 mörk. Yoon skoraði á sínum ferli 2.905 mörk.
- Daníel Þór Ingason skoraði tvö mörk í þremur tilraunum og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur þegar lið hans Balingen Weilstetten van Bietigheim, 41:28, á heimavelli í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gær. Oddur Grétarsson skoraði einu sinni fyrir Balingen og var vísað af velli einu sinni. Balingen er sem áður lang efst í deildinni með 58 stig þegar þrjár umferðir eru eftir og er níu stigum framar en Eisenach sem er í öðru sæti.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði eitt mark og átti þrjár stoðsendingar í níu marka sigri Coburg á Wölfe Würzburg, 33:24, í 2. deild Þjóðverja í handknattleik karla. Coburg er áfram í 10. sæti, þremur stigum á eftir Tusem Essen sem er í níunda sæti.
- Örn Vésteinsson Östenberg skoraði ekki mark fyrir TuS N-Lübbecke þegar liðið steinlá fyrir Eisenach, 27:19, á útivelli í þýsku 2. deildinni í gærkvöld. TuS N-Lübbecke er í fjórða sæti með 46 stig og hefur fjarlægast annað sæti deildarinnar sem veitir rétt á að taka sæti í efstu deild á næstu leiktíð.
- Auglýsing -