- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Úrslit í Álaborg, Fredericia, fyrri í umspili, Noregur, flugmiðar seldust upp

Aron Pálmarsson - Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Fyrsti úrslitaleikurinn um danska meistaratitilinn í handknattleik karla fer fram í kvöld. Aalborg Håndbold með Aron Pálmarsson og Arnór Atlason innanborðs tekur á móti meisturum síðasta árs, GOG, í Álaborg. Liðlega 5.000 aðgöngumiðar á leikinn seldust upp á skömmum tíma og fengu færri en vildu.
  • Einnig verða lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í Fredericia á ferðinni í kvöld. Þeir sækja Skjern heim í fyrsta leik liðanna um bronsverðlaunin í úrslitakeppninni.
  • Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar í BSV Sachsen Zwickau taka á móti Göppingen í fyrri viðureigninni í umspili 1. deildar í þýska handknattleiknum síðdegis. BSV Sachsen Zwickau hafnaði í næst neðsta sæti 1. deildar en Göppingen varð í öðru sæti 2. deildar. Síðari leikurinn verður í Göppingen á laugardaginn. Samanlögð úrslit skera úr um hvort liðið leikur í 1. deild á næstu leiktíð. Lið sömu félaga mættust í umspili fyrir ári og höfðu Díana Dögg og samherjar betur.
  • Kolstad og Elverum halda áfram kapphlaupinu um sigurlaunin í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í Noregi síðdegis. Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson í Kolstad verða á heimavelli gegn Elverum sem Orri Freyr Þorkelsson leikur með. Staðan er jöfn, hvort lið hefur einn vinning. Liðið sem fyrr hefur af að sigra í þremur leikjum vinnur úrslitakeppnina.
  • Eins og áður hefur komið fram er gríðarlegur áhugi í Færeyjum fyrir Evrópumótinu í handknattleik karla í janúar enda landslið Færeyinga með í fyrsta skiptið. Flugfélagið Atlantic Airways seldi rúmlega rúmlega eitt þúsund farseðla í sex leiguflug til Berlínar í gær á 25 mínútum. Verið er að vinna í fá fleiri vélar á leigu því reiknað er með að ekki færri en 2.500 Færeyingar hafi þegar keypt miða á leiki landsliðsins á mótinu, ýmist á alla leikina þrjá í riðlakeppninni eða á staka leiki.
  • Henny Reistad skoraði átta mörk og var markahæst hjá Esbjerg þegar liðið vann Odsense í fyrstu viðureign liðanna um danska meistaratitilinn í handknattleik kvenna í gærkvöld. Leikið var í Óðinsvéum. Maren Aardahl var markahæst hjá Odense með sex mörk.  Næsti leikur verður ekki fyrr en mánudaginn 8. júní vegna þátttöku Esbjerg í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -