Hafnfirðingurinn Elín Klara Þorkelsson lék sinn fyrsta stórmótsleik með A-landsliðinu gegn Hollendingum á EM í gær. Þessi tvítuga kona sem stýrði sóknarleiknum af festu, lék hollensku varnarmennina grátt hvað eftir annað með hraða sínum og snerpu en ekki síður útsjónarsemi. Auk þess að skora þá átti hún nokkrar stoðsendingar á samherja sína og lagði upp mörk.
Elín Klara skoraði m.a. tvö mörk með þrumuskotum, sem góður maður sagði einu sinni vera bylmingsskot. Annað þeirra mældist á 101,95 km hraða, sem var aflmesta markskot íslenska liðsins í leiknum við hollenska landsliðið.
Markið má sjá hér fyrir neðan. Síðara markið, af sömu uppskrift, var síðasta mark leiksins.
Elín Klara og félagar í íslenska landsliðinu verða næst í eldlínunni á Evrópumótinu annað kvöld þegar leikið verður við Úkraínu í Ólympíuhöllinni í Innsbruck.
Leikurinn hefst klukkan 19.30.