- Auglýsing -

Myndskeið: Handbolti í 100 ár á Íslandi

Mynd/Mummi Lú

Á þessu ári eru 100 ár liðin síðan að handboltinn kom til Íslands og farið var að æfa íþróttina sem hefur áratugum saman verið ein vinsælasta íþrótt landsins. Árangur landsliðanna hefur verið framúrskarandi og íslenskir handknattleiksmenn orðið að goðsögnum, jafnt hér á landi sem utan lands. Þátttaka landsliðanna á stórmótum hefur sameinað þjóðina áratugum saman.


„Það eru margar skemmtilegar vörður á þessari 100 ára leið og þau voru ófá brosin sem það kallaði fram að fara í gegnum gamalt myndefni tengt íþróttinni til að setja saman auglýsingu í tilefni þessa stóra áfanga,“ segir í tilkynningu sem Handknattleikssamband Íslands sendi frá sér í dag ásamt auglýsingu sem sjá má hér fyrir neðan.Sum augnablik í sögu handknattleiks hér á landi er samofin sögu þjóðarinnar. Má þar m.a. nefna þegar kvennalandsliðið braut blað í íþróttasögunni þegar það varð fyrst landsliða til þess að vinna til gullverðlauna á alþjóðlegu móti árið 1964. Sama ár varð Sigríður Sigurðardóttir, fyrirliði landsliðsins, fyrst kvenna kjörin Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna. Fleiri atriði má nefna eins og gullverðlaun í B-heimsmeistarakeppninni i Frakklandi 1989, silfurverðlaun á Ólympíuleikunum 2008 og bronsverðlaun á EM 2010 hjá karlalandsliðinu.


„Fjöldi barna og ungmenna hefur prófað sig áfram í íþróttinni á þessum langa tíma. Óháð árangri trúum við að handboltinn og andinn innan íþróttarinnar fylgi þeim áfram út í lífið. Hreyfingin á svo sannarlega traustasta lið stuðningsmanna sem hægt er að finna. Við hlökkum til að fylgja ykkur öllum næstu hundrað árin. Því eins og segir í nýju auglýsingunni okkar erum við rétt að byrja!,“ segir ennfremur í tilkynningu HSÍ.


- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -