Bosnía, Úkraína, Litáen og Pólland eru þær fjórar þjóðir sem náðu bestum árangri af þeim liðum sem höfnuðu í þriðja sæti riðlakeppni Evrópumóts karla í handknattleik í dag og verða þar af leiðandi meðal þátttökuríkjanna 24 sem taka þátt í Evrópumótinu sem fram fer í 13. til 31. janúar á næsta ári. Landslið Sviss er eitt þeirra sem situr eftir.
Litáen hefur ekki tekið þátt í lokakeppni EM frá árinu 1998 en þá voru þátttökulið 12 en verða 24 á EM á næsta ári í annað sinn.
Til viðbótar urðu landslið eftirtalinna þjóða í fyrsta eða öðru sæti í sínum riðlum og verða einnig með: Serbía, Frakkland, Þýskaland Austurríki, Rússland, Tékkland, Portúgal, Ísland, Slóvenía, Holland, Noregur, Hvíta-Rússland, Danmörk, Norður-Makedónía, Svíþjóð og Svartfjallaland.
Landslið fjögurra þjóða fóru ekki í gegnum undankeppnina. Það eru Evrópumeistarar Spánverja, Króatar sem höfnuðu í öðru sæti á EM 2020 auk Ungverja og Slóvaka sem verða gestgjafar mótsins.
Ísland í þriðja flokki?
Dregið verður í riðla í Búdapest á fimmtudaginn. Styrkleikalisti fyrir niðurröðunina verður gefinn út á morgun af Handknattleikssambandi Evrópu ef að líkum lætur. Styrkleikalistarnir verða fjórir og riðlar á fyrsta stigi sex. Samkvæmt óstaðfestum fregnum er reiknað með að Ísland verði í þriðja styrkleikaflokki ásamt Slóvakíu, Norður-Makedóníu, Frakklandi, Tékkalandi og Hvíta-Rússlandi.
Að vanda er litið til árangurs í síðustu lokakeppni EM og undankeppninnar þegar raðað er niður í styrkleikaflokka. Vegna slaks árangurs Dana á EM 2020 er talið að heimsmeistararnir verði í öðrum styrkleikaflokki eins og Svíar sem léku til úrslita við Dani á HM í janúar sl.