„Næstu dagar verða skemmtilegir. Það verður nóg um að vera áður en við förum til Noregs á miðvikudaginn. Meðal annars náum við tveimur æfingum og þurfum um leið að ljúka ýmsu því sem óhjákvæmilega fylgir undirbúningi fyrir stórmót. Það er í mörg horn að líta og margt af þessu er ný reynsla fyrir okkur en kærkomin á þroskabraut landsliðsins,“ sagði Arnar Pétursson þjálfari kvennalandsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag rétt áður en fyrsta æfing landsliðsins í formlegum undirbúningi hófst í Kaplakrika upp úr miðjum degi.
Landsliðshópurinn og starfsmenn fara til Noregs á miðvikudaginn. „Það verður gott að komast út og ná þremur góðum vináttuleikjum áður en heimsmeistaramótið hefst. Ef allt gengur eftir þá munu leikirnir nýtast okkur mjög vel við undirbúninginn,“ sagði Arnar.
Mótið sem Arnar nefnir hefst á fimmtudaginn með leik við Pólverja í Hamri. Eftir það tekur við leikur við heims- og Evrópumeistara Noregs á laugardag. Daginn eftir mætir íslenska landsliðið Afríkumeisturum Angóla sem verða einnig með íslenska landsliðinu í D-riðli heimsmeistaramótsins. Tveir síðari leikirnir fara fram í Hákonshöll í Lillehammer sem reist var fyrir Vetrarólympíuleikana 1994.
Leikjadagskrá Posten Cup 23. - 26. nóvember: Fimmtudagur, Hamar: Kl. 15.45: Pólland - Ísland. Kl. 18.15: Noregur - Angóla. Laugardagur, Lillehammer: Kl. 15.45: Noregur - Ísland. Kl. 18.15: Angóla - Pólland. Sunnudagur, Lillehammer: Kl.13.45: Noregur - Pólland. Kl.16.15: Ísland - Angóla. - Allir leiktímar eru miðað við klukkuna á Íslandi. - RÚV sýnir alla leiki Íslands á mótinu. - Handbolti.is ætlar eftir fremsta megni að fylgjast með leikjum Ísland á mótinu
Gott að fá alvöru verkefni
„Leikirnir verða við þrjár mjög sterkar þjóðir, þar á meðal heims- og Evrópumeistarana. Ég tel það vera gott fyrir okkar að fá alvöru verkefni rétt fyrir HM og fá svör við spurningum sem brenna á vörum okkar,“ sagði Arnar.
Fjórir daga líða frá því að mótinu lýkur í Lillehammer þangað til íslenska landsliðið mætir til leiks gegn Slóvenum í upphafsleik D-riðils í DHB-Arena í Stavangri fimmtudaginn 30. nóvember.
Leikir Íslands í D-riðli HM: 30. nóvember: Slóvenía - Ísland, kl. 17. 2. desember: Ísland - Frakkland, kl. 17. 4. desember: Angóla - Ísland, kl. 17. - Leikið verður í Stavanger Idrettshall (DNB-Arena) sem rúmar 4.100 áhorfendur í sæti. - Handbolti.is fylgir landsliðinu eftir á HM eins og grár köttur frá fyrsta leik til þess síðasta.
- Þrjú efstu lið hvers riðils fara áfram í milliriðlakeppni. Ef Ísland kemst áfram í milliriðil flytur liðið sig um set og fer til Þrándheims og leikur þar 6., 8. og 10. desember.
- Neðsta lið hvers riðils tekur þátt í keppni um forsetabikarinn, sæti 25 til 32, í Frederikshavn í Danmörku frá 7. til 13. desember.
Tengt efni: