- Auglýsing -
- Auglýsing -

Náum vonandi þremur umferðum fyrir áramót

Glaðbeittir leikmenn Selfoss eftir sigur á FH í haust. Mynd/Facebooksíða Selfoss
- Auglýsing -

Halldór Jóhann Sigfússon og leikmenn hans í liði Selfoss gátu æft án takmarkana fram að síðustu helgi, ólíkt þeim sem voru á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir þó ljóst að aðeins hafi borið á þreytu hjá leikmönnum þegar á leið tímabilið og óvissan varð meiri hvenær hægt yrði að hefja keppni á nýjan leik í Olísdeild karla.

Halldór Jóhann vonast til að opnað verði fyrir einhverskonar æfingar eftir 17. nóvember og að upp úr næstu mánaðarmótum þá þannig að hægt verði að fara í hefðbundnari æfingar þar sem menn mega snerta hvern annan. Takist það væri hægt að mati Halldórs að leika þrjá umferðir í Olísdeild á mill 20. og 30. desember.

Það væri óskynsamlegt að flauta til leiks á HM í janúar að mati Halldórs Jóhanns eins og staðan er. Komi hinsvegar til að HM fari fram eins og stefnt er að væri góður kostur að halda deildabikarkeppni fyrir félögin hér heima til að koma mönnum almennilega í gang og nýta tímann. Eins þarf að mati Halldórs Jóhanns að setja upp tímaramma fyrir Íslandsmótið um leið og hægt verður að keppa á ný við viðunandi aðstæður.

Handbolti.is sendi Halldóri Jóhanni, eins og fleiri þjálfurum í Olís,- og Grill 66-deildunum nokkrar spurningar og eru svör hans hér að neðan.

Vorum heppnir

Hvernig hefur gengið að halda leikmönnum við efnið síðustu vikur?

„Það hefur gengið ágætlega því að við vorum svo heppnir að fá að æfa í bolta alveg fram að þessum nýju hertu aðgerðum.  Við í þjálfarateyminu fundum samt fyrir ákveðinni þreytu hjá mönnum og mér fannst fókusinn á æfingum verða minni eftir því sem leið á.  Því minnkuðum við æfingamagnið eftir tvær fyrstu vikurnar og tókum eina æfingu í sal í þriðju vikunni til að ná ferskleikanum aftur í gang.“

Rólegri vika fyrir stíganda

Hvernig horfir þú til næstu vikna sem þjálfari?

„Við munum hafa þessa fyrstu viku rólega og gefa mönnum prógramm fyrir hana sem þeir framfylgja sjálfir og síðan munum við reyna að hafa stíganda í þessu fram að þeim tímapunkti sem við komumst inn í bolta.  Þetta mun reyna mikið á alla aðila, þjálfara og leikmenn.  Vonandi komumst við inní sal eftir 17. nóvember því það mundi einfalda allt fyrir alla, leikmenn og þjálfara.“

Hrifinn af deildabikarkeppni

Er eitthvað hægt að velta framhaldinu fyrir í sér í deildarkeppninni meðan óljóst er hvenær verður hægt að hefja æfingar af einhverjum krafti?

„Nei, það er erfitt en ef við gefum okkur það að við getum byrjað að æfa inní sal eftir 17. nóv, þá í kontakt um mánaðarmótin nóv-des, sé ég ekkert því til fyrirstöðu að spila þrjár umferðir fyrir áramót, 20., 27. og 30. des til dæmis.  Ég persónulega er hrifinn af deildarbikar hugmyndinni í janúar ef HM verður spilað en eins og staðan er núna þá er galið að HM fari fram í janúar.  Best væri auðvitað að við ásamt öðrum deildum í heiminum fengjum tíma og rúm til að klára deildarkeppnirnar og því væri janúar mikilvægur í því samhengi.  Síðan er mikilvægt að við finnum leið til að klára deildarkeppnina.  Við erum með tímaramma til 1. júlí á mótinu öllu en mín skoðun er að við þurfum líka tímaramma fyrir deildina td 1. apríl og þá gildir staðan á þeim tímapunkti fyrir úrslitakeppnina.  Ef einhverjir leikir standa eftir þá væri hægt að nota fyrstu vikuna í apríl til að vinna það upp og jafna út leikjafjöldann.  En ég treysti Robba og co að finna bestu og sanngjörnustu leiðina fyrir alla.“

Fleiri vöðvameiðsli

Hvaða áhrif getur ástand síðustu vikna, þ.e. leikið, takmarkaðar og jafnvel litlar æfingar, haft á framhaldið hjá liðum Olís karla, svona heilt yfir?

„Við munum örugglega sjá meira af vöðvameiðslum þegar allt fer af stað aftur.  Vonandi hefur þetta ekki mikil áhrif á deildirnar en mín skoðun er að við verðum að byrja deildirnar eins fljótt og hægt er til að fá handbolta í sjónvarpið og inní alla íþróttaumræðu sem er svo mikilvægt.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -