Þótt Ómar Ingi Magnússon væri atkvæðamikill í liði SC Magdeburg í dag þá urðu Þýskalandsmeistarar SC Magdeburg að bíta í það súra epli að tapa fyrir Füchse Berlin í Meistarakeppni þýska handknattleiksins í dag, 32:30. Ómar Ingi skoraði níu mörk, þar af sex úr vítaköstum, að viðstöddum liðlega níu þúsund áhorfendum í PSD Bank Dome í Düsseldorf.
Ómar Ingi gaf einnig tvær stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk og gaf þrjár stoðsendingar. Albin Lagergren skoraði fimm mörk og var næst markahæstur hjá SC Magdeburg.
Svíinn Jerry Tollbring var markahæstur hjá Berlinarliðinu með níu mörk. Lasse Bredekjær Andersson var næstur með sjö mörk. Landi hans Mathias Gidsel skoraði fjögur mörk auk einnar stoðsendingar.
Öruggt hjá meisturunum
HB Ludwigsburg, áður Bietigheim, vann bikarmeistara TuS Metzingen, 32:24, í meistarakeppninni í kvennaflokki sem einnig var leikin í PSD Bank Dome í dag. Sandra Erlingsdóttir er í fæðingaorlofi og lék ekki með TuS Metzingen sem var marki undir að loknum fyrri hálfleik, 15:14.