- Auglýsing -
- Auglýsing -

Norðmenn hætta við að sækja Dani heim í kvöld

Christian Berge, þjálfari norska karlalandsliðsins. Mynd/EPA

Ekkert verður af fyrirhuguðum vináttulandsleik Dana og Norðmanna í handknattleik karla í kvöld sem fram átti að fara í Royal Stage Hillerød. Forsvarsmenn norska landsliðsins telja ekki skynsamlegt í ljósi útbreiðslu kórónuveirunnar að halda til Danmerkur að sinni. Rétt sé að norska landsliðið verði áfram í sóttkví heima fyrir samhliða æfingum.

Ennþá stendur til að landslið þjóðanna leiði saman hesta sína í Hillerød á laugardaginn. Í yfirlýsingu sem norska handknattleikssambandið sendi frá sér í morgunsárið segir að þótt hætt hafi verið við leikinn í kvöld standi enn fyrir dyrum að koma leiknum á laugardaginn á dagskrá.


Ekkert smit hefur komið upp í norska landsliðinu síðan það kom saman á öðrum degi á nýju ári. Eitt smit hefur greinst innan danska landsliðsins. Eftir ítrekaða skimun síðustu daga hafa fleiri smit ekki greinst hjá Dönum.Fyrsti leikur Noregs á EM verður á móti Slóvökum í Kosice í Slóvakíu eftir viku.

Fyrirhugaður vináttulandsleikur Króata og Bosníumanna sem fram átti að fara í kvöld hefur verið afturkallaður vegna smita í herbúðum Bosníumanna. Þegar eru tveir leikmenn Króata í einangrun eins og kom fram í fréttum fyrr í vikunni.


Í gær hætti landslið Litáen við að koma til Íslands og leika í tvígang gegn íslenska landsliðinu á Ásvöllum annað kvöld og á sunnudaginn. Litáar verða í riðli með Norðmönnum á EM.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -