„Fram til þessa hafa leikir okkar einkennst af því að við höfum siglt í gegnum þá jafnt og þétt án þess að eiga glansandi frammistöðu. Að þessu sinni má segja að allt hafi hinsvegar smollið saman, ekki síst fyrstu fjörtíu mínúturnar þegar við vorum frábærir,“ sagði Gunnar Steinn Jónsson leikmaður Stjörnunnar sem fór á kostum þegar Garðabæjarliðið vann Íslands- og bikarmeistara Vals, 36:33, í uppgjöri taplausu liðanna í Olísdeild karla í TM-höllinni í gærkvöld.
Auk sex marka í átta skotum skapaði Gunnar Steinn tíu marktækifæri, af því voru níu stoðsendingar, margar á Starra Friðriksson hægri hornamann sem brást vart bogalistin og skoraði níu mörk í 11 skotum.
„Við slökuðum aðeins of mikið á undir lokin en vissulega spilaði einnig inn í að Valsmenn tóku áhættu í mörgum tilfellum sem bar árangur. Þar af leiðandi dró saman með liðunum undir lokin. Margir af Völsurunum eru ungir sprækir og náðu að keyra upp hraðann meðan við vorum aðeins farnir að lýjast.
Við áttum innilega skilið að vinna og kóróna þar með frábæra byrjun hjá okkur í deildinni,“ sagði Gunnar Steinn Jónsson en Stjarnan hefur ekki tapað stigi í fyrstu fimm leikjum sínum og situr á toppi Olísdeildarinnar.