Tveimur af nýjustu liðsmönnum handknattleiksliðs KA, Einari Rafni Eiðssyni og Óðni Þór Ríkharðssyni, er ýmislegt til lista lagt annað en afbragðs kunnátta í handknattleik. Báðir taka þátt í Íslandsmótinu í golfi sem fram fer á Jaðarsvelli á Akureyri. Einar Rafn heltist úr lestinni eftir tvo keppnisdaga en Óðin Þór slapp í gegnum niðurskurðinn og verður með Einar Rafn á pokanum á síðasta keppnisdegi mótsins á morgun.
Í bráðskemmtilegu viðtali við Skapta Hallgrímsson ritstjóra Akureyri.net segir Einar Rafn að Óðinn hafi „platað sig“ til að taka þátt. Hvorugur segist þó leika oft golf þótt annað megi lesa á milli línanna.
Þegar talið berst aftur að handboltanum kemur í ljós að gamall draumur rættist í sumar þegar félagarnir gengu til liðs við KA.
Eitthvað sexý við KA
„Ég get varla útskýrt það en 2001 og 2002, þegar KA-menn voru að berjast við Hauka, fannst mér strax eitthvað sexý við KA,“ segir Einar Rafn. Faðir hans, Eiður Arnarson, var þá formaður handboltadeildar Hauka en Einar segist hafa hrifist af Akureyrarliðinu og allar götur síðan hafi í raun blundað í honum að koma norður. Eignkona Einars Rafns, Unnur Ómarsdóttir, er frá Akureyri og mun styrkja lið Íslandsmeistara KA/Þórs á keppnistímabilinu sem er framundan.
„Hann smitaði mig,“ segir Óðinn Þór. „Við ætluðum eiginlega að vera löngu komnir norður, en svo fór ég til Danmerkur þannig að þetta frestaðist. Hann vildi ekki fara án mín.“
Samtalið í heild á Akureyri.net er að finna hér.