- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýtum leikmannahópinn og leitum áfram lausna

Leikmenn ÍBV fagna sigri snemma á keppnistímabilinu þegar áhorfendur máttu koma á leiki. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

„Við vorum í erfiðleikum með Stjörnumenn í 45 mínútur en síðasta stundarfjórðunginn tókst okkur að binda vörnina betur saman. Upp úr því þá fengum við möguleika undir lokin til að krækja í annað stigið en því miður tókst það ekki,“ sagði Kristinn Guðmundsson, annar þjálfara karlaliðs ÍBV, eftir eins marks tap fyrir Stjörnunni í Olísdeild karla í handknattleik í gærkvöld, 30:29.


Eyjamenn söknuðu a.m.k. þriggja leikmanna í gær, þeirra Fannars Þórs Friðgeirssonar, Sigtryggs Daða Rúnarssonar og Ívars Loga Styrmissonar. Allir eru þeir á sjúkralista. Fyrir vikið voru fleiri óreyndari menn í eldlínunni í leiknum í TM-höllinni. Kristinn sagði að í ljósi ástandsins væri ekki annað hægt en að nýta yngri leikmenn og koma þeim inn í leik liðsins og öðlast reynslu.

„Álagið er mikið og nauðsynlegt að dreifa álaginu vel á milli þeirra leikmanna sem eru fyrir hendi. Tíminn nýtist vel. Keppnistímabilið er kannski ekki langt í mánuðum talið en leikirnir sem eru framundan eru mjög margir. Þá er eins gott að nýta þann hóp sem er fyrir hendi. Það má ekki bara horfa á úrslitin heldur líta til þeirra framfara og reynslu sem yngri menn öðlast með hverjum leiknum sem þeir fara í gegnum.


Þegar á heildina er litið var leikurinn við Stjörnuna betri en leikurinn við Gróttu í síðustu viku. Það þýðir þó ekki að enn sé ekki svigrúm fyrir lagfæringar á mörgum sviðum. Kosturinn við okkar hóp er að menn gefast aldrei upp. Þeir hafa alltaf trú á að þeir geti komist inn í leikinn meðan einhver tími er eftir á leikklukkunni. Við höfum hinsvegar ekki verið nógu klókir í ýmsum stöðum, bæði núna og gegn Gróttu. Til dæmis virðist fyrsta sókn eftir leikhlé yfirleitt renna út í sandinn. Við höldum áfram að leita leiða til framfara,“ sagði Kristinn Guðmundsson, annar þjálfara karlaliðs ÍBV í samtali við handbolta.is í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -