- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Oddaleikur í Fjölnishöllinni á fimmtudagskvöld

Leikmenn Fjölnis unnu á Akureyri í kvöld og leika oddaleik við Þór á heimavelli. Ljósmynd/Þorgils G.
- Auglýsing -

Fjölni og Þór mætast í oddaleik í umspili Olísdeildar karla í handknattleik á fimmtudagskvöld í Fjölnishöllinni. Það er staðreynd eftir að Fjölnir vann fjórðu viðureign liðanna í íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld, 26:22, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 11:10.

Reyndar byrjuðu leikmenn Fjölnis leikinn afar illa en unnu sig jafnt og þétt inn í hann. Þeir áttu flottan endasprett í fyrri hálfleik og voru síðan með tögl og hagldir allan síðari hálfleikinn.

Hvort lið hefur þar með unnið tvisvar sinnum. Sigurlið í leiksins á fimmtudaginn tekur sæti í Olísdeildinni á næstu leiktíð. Þetta verður annað árið í röð sem Fjölnir leikur oddaleik í umspilinu.

Fjölnismenn fóru illa af stað og skoruðu ekki sitt fyrsta mark fyrr en eftir rúmar átta mínútur. Þá þegar hafði Þór skorað fjögur mörk. Um miðjan hálfleikinn var forskot heimaliðsins fimm mörk, 9:4. Þór hélt áfram að hafa yfirhöndina. Arnór Þorri Þorsteinsson kom Þór sex mörkum yfir, 11:5, þegar rúmar sjö mínútur voru til hálfleiks. Þá datt botninn úr sóknarleik Þórs auk þess sem Sigurður Ingiberg Ólafsson lifnaði heldur betur við í marki Fjölnis og varði hvað eftir annað. Leikmenn Fjölnis skoruðu fimm síðustu mörk hálfleiksins. Þór var þar með aðeins marki yfir í hálfleik, 11:10.

Gáfu ekkert eftir í síðari

Fjölnir komst yfir fljótlega í síðari hálfleik og hélt forskotinu fram í miðjan hálfleikinn, 19:17. Þór jafnaði 19:19. Fjölnismenn létu ekki hug falla og sneru leiknum sér í hag á ný og náðu fjögurra marka forskoti, 23:19, fimm og hálfri mínútu fyrir leikslok. Þórsurum tókst ekki að minnka muninn nema niður í tvö mörk. Fjölnismenn héldu vel á spilunum á síðustu mínútunum og unnu sætan sigur, 26:22, og fara væntanlega syngjandi suður í rútunni í kvöld.

Mörk Þórs: Aron Hólm Kristjánsson 6, Arnór Þorri Þorsteinsson 5, Brynjar Hólm Grétarsson 5, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2, Arnþór Gylfi Finnsson 1, Friðrik Svavarsson 1, Halldór Kristinn Harðarson 1, Þormar Sigurðsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 17.

Mörk Fjölnis: Björgvin Páll Rúnarsson 7, Dagur Logi Sigurðsson 4, Haraldur Björn Hjörleifsson 4, Viktor Berg Grétarsson 4, Sigurður Örn Þorsteinsson 2, Óðinn Freyr Heiðmarsson 2, Alex Máni Oddnýjarson 1, Elvar Þór Ólafsson 1, Victor Máni Matthíasson 1.
Varin skot: Sigurður Ingiberg Ólafsson 12.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -