- Auglýsing -
- Auglýsing -

Oddur flytur heim í sumar – ekki stendur til að leggja skóna á hilluna

Oddur Gretarsson kveður Balingen-Weilstetten í sumar eftir sjö ára veru. Mynd/Balingen Weilstetten
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Oddur Gretarsson hefur ákveðið að flytja heim í sumar eftir 11 ár í atvinnumennsku í Þýskalandi. Síðustu sjö ár hefur hann leikið með Balingen-Weilstetten, ýmist í 1. eða 2. deild en nú um stundir er liðið í 1. deild. Oddur sagði við handbolta.is í morgun að hann hafi í hyggju að leika handknattleik heima á Íslandi á næstu leiktíð. Hvar það verður ráðist af því hvar fjölskyldan skýtur rótum.

Oddur skrifaði fyrir ári síðan undir tveggja ára samning við Balingen-Weilstetten en ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði að láta gott heita í sumar.

„Við tókum þá ákvörðun að rifta samningnum og flytja heim í sumar eftir 11 ár í Þýskalandi,“ sagði Oddur sem hefur verið með bestu og markahæstu leikmönnum Balingen-Weilstetten á undanförnum árum. Félagið er staðsett í suðvestur hluta Þýskalands.

Oddur Gretarsson við hótel íslenska landsliðsins á HM í Egyptalandi 2021. Mynd/Ívar

„Ég ætla að halda áfram að spila handbolta svo það fer bara svolítið eftir því hvar það verður. Við erum að klára okkar mál um þessar mundir,“ sagði Oddur spurður hvort hann ætlaði að flytja norður í heimahagana á Akureyri. Oddur er uppalinn Þórsari og lék einnig með Akureyri handboltafélagi áður en hann flutti til Þýskalands sumarið 2013.

Oddur var m.a. í liði Akureyrar sem varð deildarmeistari í Olísdeildinni vorið 2011 og tapaði fyrir FH í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn sama vor og fyrir Val í úrslitum bikarkeppninnar.

Oddur á að baki 30 A-landsleiki. Síðast var hann í landsliðinu vorið 2021 í undankeppni Evrópumóts en síðasta stórmót Odds með landsliðinu var HM í Egyptalandi í janúar 2021. Áður var Oddur með á HM 2011 og á EM 2012.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -