- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Óðinn Þór hefur samið til ársins 2027

Óðinn Þór Ríkharðsson landsliðsmaður í handknattlek og leikmaður Kadetten Schaffhausen. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Landsliðsmaðurinn Óðinn Þór Ríkharðsson hefur skrifað undir nýjan samning við svissneska meistaraliðið Kadetten Schaffhausen til næstu fjögurra ára, eða til loka leiktíðarinnar vorið 2027. Félagið tilkynnti þetta í kvöld. Nokkur félög voru með Óðin Þór undir smásjánni.

Óðinn Þór gekk til liðs við Kadetten Schaffhausen fyrir ári eftir að hafa orðið markahæstur í Olísdeildinni með KA og sópað að sér flestum þeim viðurkenningum sem einstaklingum hlotnast á uppskeruhátíð HSÍ í lok leiktíðarinnar vorið 2022.

Hefur slegið í gegn

Óðinn Þór hefur svo sannarlega slegið í gegn í Kadetten á leiktíðinni. Hann er markahæsti leikmaður liðsins í deildinni heimafyrir. Auk þess er hann sem stendur ennþá markahæsti leikmaður Evrópudeildarinnar þegar fjórir leikir eru eftir í keppninni. Kadetten er úr leik svo hugsanlega skýst einhver upp fyrir Óðinn á endasprettinum.


Forráðamenn Kadetten eru í sjöunda himni með að hafa tryggt sér starfskrafta Óðins Þór næstu árin enda hafi hann verið eftirsóttur af nokkrum félagsliðum Evrópu. „Það að Óðinn Þór velji að halda áfram með okkur sýnir að hann hefur trú á því sem við erum að gera og höfum í hyggju að gera á næstu árum,“ sagði David Grabner framkvæmdastjóri Kadetten í tilkynningu félagsins í kvöld

Hélt umsvifalaust upp á samninginn

Óðinn Þór hélt upp á nýjan samning sinn strax í kvöld með því að skora 10 mörk og vera markahæstur hjá Kadetten í sex marka sigri á Pfadi Winterthur, 34:28, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum úrslitakeppni svissnesku A-deildarinnar.

Leikurinn fór fram í Kadetten. Aðalsteinn Eyjólfsson er að vanda þjálfari liðsins. Næsti leikur verður í Winterthur á sunnudaginn.

Í hinni rimmu undanúrslitanna unnu deildarmeistarar HC Kriens liðsmenn BSV Bern, 31:29, á heimavelli.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -