- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Frakkar meistarar í mikilli dramatík

Leikmenn franska landsliðsins fagna sigri í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í dag. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Frakkar eru Ólympíumeistarar í handknattleik karla eftir tveggja marka sigur á Ólympíumeisturunum frá 2016, Dönum, í hörku úrslitaleik í Tókýó í dag, 25:23, þar sem mikil dramatík var á síðustu sekúndunum. Ludovig Fabregas innsiglaði sigur Frakka á síðustu sekúndunum eftir að hafa komist inn í línusendingu Danans Mathias Gidsel.


Danir höfðu unnið boltann í stöðunni 24:23 þegar 46 sekúndur voru til leiksloka. Þeir freistuðu þess að jafna metin en allt kom fyrir ekki. Frakkar fögnuðu sigri í handknattleikskeppni Ólympíuleika í karlaflokki í þriðja sinn. Danir sátu eftir með sárt ennið þrátt fyrir frábæran endasprett.

Franska liðið var með tögl og hagldir lengst af leiksins. Varnarleikur liðsins var frábær og Dönum reyndist erfitt að brjóta Frakka á bak aftur. Frakkar náðu mest sex marka forskoti og virtust hafa öll ráð í hendi sér. Danska liðið vaknaði hinsvegar til lífsins á síðasta stundarfjórðungnum. Ekki síst fyrir frábæran leik Niklas Landin í markinu auk þess sem þeim tókst að fækka sóknarmistökum sem voru allt of mörg lengst af leiksins.

Ólympíumeistarar Frakka í handknattleik karla. Mynd/EPA


Michaël Guigou, Luc Abalo og Nikola Karabatic hafa verið í sigurliði Frakka í öll þrjú skiptin á á Ólympíuleikum. Karabatic er nú orðinn sigursælasti handknattleiksmaður sögunnar en hann hefur fjórum sinnum orðið heimsmeistari, þrisvar Ólympíumeistari og þrisvar Evrópumeistari með franska landsliðinu auk þess að vera í sigurliði Montpellier í Meistaradeild Evrópu 2004 og í sigurliði Barcelona í sömu keppni 11 árum síðar.


Guillaume Gille þjálfari Frakka hefur nú orðið Ólympíumeistari bæði sem þjálfari og leikmaður.


Nedim Remili var markahæstur Frakka með fimm mörk. Dika Mem og Hugo Descat skoruðu þrjú mörk hvor. Vincent Gerard varði 10 skot, 32%.
Mikkel Hansen skoraði níu mörk fyrir Dani og varð þeirra markahæstur.

Gidsel var næstur með sex mörk. Landin átti sem fyrr segir stórleik í síðari hálfleik og varði alls 14 skot, 37%.


Hansen setti markamet á Ólympíuleikum, skoraði alls 61 mark. Bætti hann met Kyung-shin Yoon frá Suður Kóreu frá leikunum 2004 um þrjú mörk.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -