- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Norska hraðlestin fór á fulla ferð

Stine Bredal Oftedal fór á kostum í norska liðinu í morgun gegn Svartfellingum. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Hafi einhver haldið að gangtruflanir væri komnar í norsku hraðlestina þá hurfu þær efasemdir út í veður og vind í verðurblíðunni í Tókýó í morgun. Norska landsliðið hreinlega keyrði á fullu gasi yfir svartfellska landsliðið í þriðju umferð handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í morgun.


Eftir örlítlar gangtruflanir framan af fyrri hálfleik var allt sett á fullt. Þar með var svartfellska liðið aðeins áhorfandi að leiknum. Noregur náði mest 13 marka forskoti í síðari hálfleik og vann leikinn örugglega, 35:23. Staðan í hálfleik var jöfn, 13:13, en Svartfellingar voru tveimur mörkum yfir, 13:11, þegar mínúta var eftir af leiktímanum í fyrri hálfleik.


Noregur hefur þar með sex stig eftir þrjá leiki en Svartfellingar tvö stig og eiga fyrir höndum erfiða leið til að komast í átta liða úrslit leikanna.
Noregur og Hollendingar hafa þar með öðlast sæti í átta liða úrslit leikanna.


Norska landsliðið var yfir framan af, 5:4, eftir átta mínútur. Svartfellingar hrukku í gang og skoruðu fjögur mörk í röð og náðu forskoti. Þórir Hergeirsson, þjálfari Noregs, tók leikhlé og endurskipulagði leik Noregs. Breytingarnar skiluðu tilætluðum árangri og áður en fyrri hálfleikur var úti var norska liðið komið á ferðina. Það skoraði tvö síðustu mörk hálfleiksins en staðan var jöfn að honum loknum, 13:13.

Gáfu strax tóninn

Norska liðið gaf tóninn með fyrsta marki síðari hálfleiks og leit aldrei um öxl eftir það. Hvert hraðaupphlaupið buldi á marki Svartfellinga. Noregur skoraði 12 mörk af fyrstu 13 mörkum síðari hálfleiks og náði sjö marka forskoti, 25:18. Þegar síðari hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður var Noregur tíu mörkum yfir, 28:18. Úrslitin voru ráðin eftir 15:5 kafla Noregs á 17 mínútum.


Ekki stóð steinn yfir steini hjá Svartfellingum sem léku svo vel í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn varð mistækur og skilað ekki marki í tíu mínútur og Ljubica Nenezic sem varði svo vel í fyrri hálfleik varð ekki öfundsverð af hlutverki sínu. Hún missti móðinn og Mariana Rajcic kom í hennar stað en fékk ekki við neitt ráðið.

Henny Reistad skoraði sjö mörk í sjö skotum með sannkölluðum þrumufleygum. Mynd/EPA

Henny Reistad átti frábæran leik. Hún skoraði sjö mörk í sjö skotum. Nora Mörk skoraði einnig sjö sinnum. Stine Oftedal lék einnig frábærlega og skoraði sex mörk og dreif norska liðið áfram í fyrri hálfleik þegar á brattan var að sækja. Einnig átti Oftedal margar stoðsendingar.

Jovanka Radicevic var markahæst í svartfellska liðinu með sex mörk. Durdina Jaukovic var næst með fimm.

Heimsmeistararnir eru sterkir

Heimsmeistararar Hollendinga unnu níu marka sigur á Angóla í upphafsleik þriðju umferðar í nótt, 37:29. Angóla hélt í við hollenska liðið í fyrri hálfleik, líkt og það gerði gegn Noregi á þriðjudaginn. Holland var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 17:15. Hið sterka hollenska landslið tók öll völd í síðari hálfleik og vann öruggan sigur og þann þriðja á Ólympíuleiknum.
Bo van Vetering var markahæst í hollenska liðinu með sjö mörk úr sjö skotum. Lois Abbingh var næst með sex mörk. Kelly Dulfer og Angela Malenstein skoruðu fimm mörk hvor. Isabel Guilalo var markahæst hjá Angóla með átta mörk. Línukonan Albertina Kassoma skoraði fimm mörk. Hún meiddist á hné í leiknum við Noreg á þriðjudaginn en meiðslin voru ekki eins alvarleg óttast var.

Asíuliðin jöfn að stigum


Suður Kórea vann Japan í uppgjöri Asíuliðanna í A-riðli, 27:24. Þetta var fyrsti sigur Suður Kóreu á leikunum og eru þjóðirnar nú jafnar að stigum með tvö hvort. Þrjú lið hafa þar með tvo stig og ljóst að framundan er mikil barátta um fjórða sætið í riðlinum. Angóla rekur lestina án stiga.


Úrslit leikja í A-riðli:
Holland – Angóla 37:28.
Japan – Suður Kórea 24:27.
Svartfjallaland – Noregur 23:35.
Staðan:

Standings provided by SofaScore LiveScore


Einum leik er lokið í B-riðli. Spánn vann Brasilíu, 27:23. Spánverjar eru þar með komnir með fjögur stig eftir þrjá leiki. Brasilía hefur þrjú stig, einnig að loknum þremur leikjum.


Klukkan 10.30 mætast Ungverjar og Rússar og tveimur stundum síðar Svíþjóð og Frakkland. Rússar eru án stiga eftir tvo leiki líkt og Ungverjar. Svíar hafa fjögur stig eftir tvo leiki en Frakkar tvö stig.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -