- Auglýsing -
- Auglýsing -

ÓL: Taugarnar voru kannski aðeins of þandar

Dagur Sigurðsson, þjálfari japanska, landsliðsins, fylgist með leiknum í nótt. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Aron var með sína menn vel stillta í leiknum og þeir voru örlítið betri en við í dag,“ sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handknattleik karla, við handbolta.is í morgun eftir að hans menn töpuðu fyrir Barein sem Aron Kristjánsson þjálfara, 32:30, í B-riðli handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í nótt.


Þetta var fyrsti sigur Barein í handknattleikskeppni á Ólympíuleikum en landslið þjóðarinnar er nú með í fyrsta skipti. Japan er enn án stiga eftir fjóra leiki en á enn von um að komast í átta liða úrslit þótt ekkert stig hafai unnist enn. Lokaleikurinn í riðlakeppninni verður við Portúgal á sunnudaginn.

„Það var ljóst að þessi leikur yrði jafn enda hafa viðureignir þessara liða verið það á síðustu árum,“ sagði Dagur ennfremur en japanska liðið var með eins marks forskot í hálfleik, 17:16, og var síðast einu marki yfir þegar 13 mínútur voru til leiksloka, 26:25.


„Taugarnar voru kannski aðeins of þandar hjá strákunum eins og verið hefur í síðustu leikjum enda eru þeir svolítið óvanir að vera í sviðsljósinu í heimalandinu. En engu að síður vel gert hjá Barein. Ég óska þeim til hamingju.

Við höldum áfram veginn. Lokaleikur okkar verður gegn Portúgal á sunnudaginn og vissulega þurfum við eitthvað stórkostlegt til að að komast áfram. Við látum ekki deigan síga meðan ennþá er von,“ sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handknattleik karla, í samtali við handbolta.is í morgunsárið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -