- Auglýsing -
- Auglýsing -

Öll vötn falla til Gautaborgar

Íslenskir áhorfendur verða margir í í Scandinavium. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Gríðarleg eftirvænting ríkir fyrir viðureign Íslands og Svíþjóðar á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla sem fram fer í Scandinavium íþróttahöllinni í Gautaborg í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30. Mikið er undir hjá íslenska landsliðinu sem má helst ekki við því að tapa stigi eða stigum í leiknum ef vonin um sæti í átta liða úrslitum HM á að lifa áfram fram yfir lokaumferðina á sunnudaginn.


Íslendingar hafa streymt til Gautaborgar í dag og í gær. Með sanni má segja að sannkölluð loftbrú hafi verið á milli Íslands og Svíþjóðar og Íslands og Gautaborgar. Öll vötn falla til Gautaborgar.


M.a. fóru þrjár fullar flugvélar Icelandair til Gautaborgar í morgun með á að giska 600 manns. Þessi hópur fer ekki heim fyrr en eftir leikinn við Brasilíu á sunnudaginn. Auk þess hafa margir komið frá Kaupmannahöfn í dag og í gær með Icelandair, Play og Nice air frá Akureyri.


Blaðamaður og ljósmyndari handbolta.is fór frá Keflavík til Kaupmannahafnar í morgun með Play. Virtust flestir farþegar úr þeirri flugvél vera með stefnuna áfram til Gautaborgar með lest en það tekur liðlega þrjá og hálfan tíma að ferðast með lest frá Kastrup til hafnarborgarinnar á vestur hluta Gautlands.


Til viðbótar voru um 450 stuðningsmenn á fyrsta leiknum vð Grænhöfðaeyjar á miðvikudaginn. Flestir þeirra eru ennþá í Gautaborg.


Enginn virðist vita með nokkurri vissu hversu margir Íslendingar verða í áhorfendastúkunni í Scandinavium í kvöld. Giskað hefur verið á að þeir verði hugsanlega 3.000 jafnvel fleiri. Opinberar tölur eru hátt í 2.000. Ekki er hægt að slá á fjöldann með vissu vegna þess að margir hafa keypt miða í gegnum miðasölukerfi mótsins eftir að allir miðarnir sem HSÍ átti seldust upp.


Upphitun stuðningsmanna íslenska landsliðsins fyrir leikinn verður á Clarion Hotel Post, Drottningtorget 10, frá kl. 15 – 18. Sérsveitin, stuðningssveit landsliða HSÍ, heldur að vanda utan um upphitunina af myndarskap eins og endranær. Þar verða seldar treyjur og annar varningur auk þess sem hægt verður að fá andlitsmálun.


Íþrótta- og sýningahöllin Scandinavium rúmar 12.000 áhorfendur í sæti. Þar mun sjóða keipum í kvöld.

HM 2023 – Milliriðlar, leikjadagskrá, staðan

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -