- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ómar Ingi lék leikmenn Kristianstad grátt

Ómar Ingi Magnússon leikmaður Magdeburg. Mynd/SC Magdeburg
- Auglýsing -

Enn einu sinni fór Ómar Ingi Magnússon hamförum með SC Magdeburg í kappleik í kvöld þegar liðið vann IFK Kristianstad með sex marka mun, 34:28, í fyrri viðureign liðanna í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik. Leikið var í Kristianstad.


Ómar Ingi lék sænsku varnarmennina grátt og skoraði 12 mörk og átti auk þess fimm stoðsendingar. Leikmenn Kristianstad réðu ekkert við Selfyssinginn sem hefur nánast farið með himinskautum á handboltavöllunum.


Magdeburg stendur því afar vel að vígi fyrir síðari viðureignina sem fram fer í Þýskalandi eftir viku. Michael Damgaard og Daniel Pettersson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Magdeburg. Jannick Green, markvörður, var vel með á nótunum og varði 13 skot, 32%.


Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk fyrir Kristianstad og Ólafur Andrés Guðmundsson eitt og átti einnig eina stoðsendingu. Línumaðurinn Adam Nyfjäll var markahæstur í sænska liðinu með fimm mörk.

Viktor Gísli var mjög góður

Viktor Gísli Hallgrímsson stóð sig vel í marki GOG þegar liðið vann Wisla Plock frá Póllandi, 30:27, á Fjóni. Viktor Gísli varði 13 skot, var með 33% hlutfallsmarkvörslu og stóð allan leikinn á milli stanganna í marki danska liðsins.


GOG var með fimm marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 17:12, og hélt góðri forystu lengi vel. Þegar sex mínútur voru til leiksloka var enn fimm mark forskot, 27:22. Þá bitu leikmenn pólska liðsins hressilega frá sér og náðu að minnka muninn í eitt mark, 28:27. Viktori Gísla og félögum lánaðist að skora tvö síðustu mörkin og halda þar með í von fyrir síðari leikinn í Plock eftir viku.


Dönsku landsliðsmennirnir Mathias Gidsel og Emil Jakobsen skoruðu sjö mörk hvor fyrir GOG. Michal Daszek skoraði sjö mörk fyrir Wisla.

Naumt tap í Moskvu


Ýmir Örn Gíslason og samherjar í Rhein-Neckar Löwen töpuðu með eins marks mun, 33:32, fyrir lærisveinum Vladimirs Maksimovs í Chekhovskiye Medvedi í Moskvu.

Löwen var fjórum mörkum yfir í hálfleik. Vopnin snerust í hinsvegar í höndum leikmanna þýska liðsins í síðari hálfleik og skömmu fyrir leikslok voru Rússarnir komnir með fjögurra marka forystu, 33:29.

Ýmir Örn og félagar eiga þar með góða von um að komast áfram haldi þeir rétt á spilunum á heimavelli. Skarð er sannarlega fyrir skildi meðan Uwe Gensheimer og Jesper Nielsen eru á sjúkralista.


Alexander Kotov héldu engin í bönd. Hann skoraði 13 mörk og átti fjórar stoðsendingar fyrir Medvedi-liðið. Andry Schmid skoraði sjö sinnum fyrir Löwen og Janni Kohlbacher og Jarry Tollbrig í sex skipti hvor. Ýmir Örn skoraði ekki að þessu sinni.


Í fjórða leik átta liða úrslitanna vann Montpellier þýska liðið Füchse Berlin, 33:29. Leikið var í Frakklandi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -