- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ómar Ingi virðist óðum nálgast sitt fyrra leikform

Ómar Ingi Magnússon skoraði níu mörk í dag og átti fjórar stoðsendingar. Mynd/SC Magdeburg
- Auglýsing -

Ómar Ingi Magnússon er óðum að nálgast sitt besta form ef marka má frammistöðu hans með SC Magdeburg í dag þegar liðið vann Lemgo, 35:28, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Selfyssingurinn skoraði níu mörk, fjögur þeirra úr vítaköstum, auk þess að gefa fjórar stoðsendingar. Hann var næst markahæstur liðsmanna Magdeburg. Svíinn Felix Claar fór á kostum og skoraði 12 mörk í 14 skotum og gaf einnig fjórar stoðsendingar.


Ómar Ingi lét einnig til sín taka í vörninni og var fyrir vikið tvisvar sinnum vísað af leikvelli í tvær mínútur.

Janus Daði Smárason skoraði ekki mark fyrir SC Magdeburg en átti eina stoðsendingu.

Niels Gerar Versteijnen skoraði átta mörk fyrir Lemgo og var atkvæðamestur við þá iðju.

Lindberg með sigurmarkið

Füchse Berlin situr í efsta sæti deildarinnar ásamt Melsungen. Hvort lið hefur 10 stig að loknum fimm leikjum. Hans Lindberg tryggði Füchse Berlin sigur á Hannover-Burgdorf með marki úr vítakasti rétt fyrir leikslok, 34:33. Hannover-Burgdorf var með yfirhöndina um tíma í leiknum. Heiðmar Felixson er þjálfari Hannover-Burgdorf.

Hannover-Burgdorf var sex mörkum yfir, 28:22, um miðjan síðari hálfleik.

Mathias Gidsel skoraði átta mörk fyrir Berlínarliðið og Hans Lindberg og Lasse Andersson sjö hvor. Marius Steinhauser og Renars Uscins skoruðu fimm mörk hvor fyrir Hannover-Burgdorf.

Afdrifarík mistök?

Danski handknattleiksmaðurinn og áhugamaður mikill, Rasmus Boysen, sagði á Facebook í dag að dómarar leiksins hafi að öllum líkindum gert tvenn afdrifarík mistök undir lok leiksins sem hafi hugsanlega kostað Hannover-Burgdorf annað eða bæði stigin í leiknum.

HSG Wetzlar vann óvæntan sigur á Göppingen, 29:24, og hefur þar með önglað í sín fyrstu stig í deildinni á leiktíðinni.

Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -