- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ömurleg vonbrigði – slakasta dómgæsla á ferlinum

Kristinn Björgúlfsson, hefur ákveðið að láta gott heita við þjálfun karlaliðs ÍR. Mynd/ÍR
- Auglýsing -

„Það eru ömurleg vonbrigði að tapa fyrir liði sem við töldum okkur eiga að vinna á heimavelli,“ sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari karlaliðs ÍR í samtali við handbolta.is í gær eftir að ÍR tapaði fyrir Herði frá Ísafirði í uppgjöri efstu liða Grill66-deildarinnar, 37:36. Leikið var á heimavelli ÍR-inga, í Austurbergi. Hörður er þar með efstur með 10 stig eftir fimm leiki en ÍR er tveimur stigum á eftir.


„Við töldum okkur ekki ósigrandi en af því að markmið okkar er að fara upp þá er tap á heimavelli ekki boðlegt,“ sagði Kristinn ennfremur en hans menn byrjuðu leikinn vel en tókst ekki að fylgja því eftir þegar á leið leikinn.

Þá hófst sirkusinn

„Við náðum fjögurra marka forskoti, 13:9, þegar sirkusinn hófst hjá dómurunum. Þeir byrjuðu að reka okkur út af fyrir allt og ekki neitt,“ sagði Kristinn sem var ómyrkur í máli í garð dómara leiksins. ÍR-ingar voru utan vallar í tíu mínútur í fyrri hálfleik en Harðarmenn í fjórar, þar af fór síðari leikmaðurinn af velli þegar um hálf mínúta var eftir af leiktíma fyrri hálfleiks.


„Það er aumkunarvert og ekkert nema léleg dómgæsla. Harðarmenn komust inn í leikinn í hvert skipti sem við vorum manni færri. Það virkaði á mig eins og dómararnir væri landsbyggðarmenn,“ bætti Kristinn við en tók fram að hann hafi ekki ennþá skoðað upptöku af leiknum svo skömmu eftir að honum var lokið.

Komust á ný inn í leikinn

Hvað sem dómgæslunni leið þá komust ÍR-ingar inn í leikinn aftur í byrjun síðari hálfleiks og tókst að jafna metin, 21:21, eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik, 19:16. Aftur komst Harðarliðið þremur mörkum yfir, 24:21. „Við jöfnuðum eftir leikhlé sem ég tók, 24:24. Þá byrjaði sirkusinn aftur. Mér líður að minnsta kosti þannig að í hvert skipti sem við vorum komnir inn í leikinn þá vorum við tíndir út af,“ sagði Kristinn.

Varnarleikur er bara vinna

Engu að síður segir Kristinn að hans menn áttu gera betur og ekki síst hefði varnarleikurinn mátt vera betri. „Eins og Geir Sveinsson sagði einhverju sinni. Varnarleikur er bara vinna. Sóknarleikur okkar var mjög góður en dugði ekki til. Mikið meira framlag vantaði í varnarleikinn. Það verða menn að hafa í huga fyrir næstu leiki,“ sagði Kristinn og bætti við.

Til hvers er eftirlitsmaður?

„Við töpuðum leiknum á eigin klúðri en dómgæslan er sú lélegasta sem ég hef fengið sem þjálfari meistaraflokksliðs ÍR karla og var hún oft léleg í fyrra. Hún var óboðleg og enn og aftur á það sér stað þótt eftirlitsmaður sé á leik. Til hvers eru eftirlitsmenn ef ekki á að fylgja reglunum?“ spyr Kristinn Björgúlfsson þjálfari ÍR og minnti m.a. á að Hörður hafi gert breytingu á leikskýrslunni á síðustu mínútu áður en leikurinn hófst. Eitt nafn var fjarlægt og öðru bætt inni í staðinn. Það telur Kristinn ekki vera rétt enda hafi þjálfarar beggja liða staðfest áður að skýrslan væri rétt.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -