Orri Freyr fór á kostum og skoraði 12 mörk í mikilli markasúpu sem boðið var upp á þegar lið hans, Elverum, vann Tønsberg Nøtterøy, 43:31, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Hann var valinn maður leiksins í liði Elverum í leikslok.
Leikið var í Terningen Arena, heimavelli norsku meistaranna. Ekkert markanna var skorað úr vítakasti ef marka má tölfræðina af vef norska handknattleikssambandsins.
Örn Vesteinsson Östenberg skoraði tvö af mörkum Tønsberg Nøtterøy sem situr í næst neðsta sæti deildarinnar með tvö stig að loknum átta leikjum.
Fátt var um varnir í leiknum eins og tölurnar gefa til kynna en að loknum fyrri hálfleik var staðan 28:17. Heldur hægði á ákafa leikmanna beggja liða við að skora í síðari hálfleik.
Orri Freyr var markahæstur í liði norsku meistaranna sem eru í efsta sæti deildarinnar með 16 stig að loknum átta leikjum. Runar Sandefjord er í öðru sæti tveimur stigum á eftir og Drammen er í þriðja sæti með 12 stig.
Hér fyrir neðan er viðtal við Orra Frey sem birt var á Facebooksíðu Elverum eftir leikinn.