- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Öruggur sigur á nýliðunum fyrir Rúmeníuför

ÍR-ingar mæta Val í Olísdeildinni. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Íslandsmeistarar Vals unnu öruggan sigur á nýliðum ÍR, 30:20, á heimavelli í kvöld í 4. umferð Olísdeildar kvenna. Valsliðið var með tögl og hagldir í leiknum frá upphafi til enda. Að loknum fyrri hálfleik var níu marka munur, 17:9. ÍR-ingar hertu upp hugann í síðari hálfleik og börðust af meiri krafti en í þeim fyrri.

ÍR hefur fjögur stig í fimmta sæti, jafnmörg og Fram og Haukar sem mætast á laugardaginn.

Valur er áfram efstur og ósigraður með átta stig að loknum leikjunum fjórum. Liðið heldur í rauða bítið af stað til Rúmeníu þar sem þess bíður viðureign við H.C. Dunarea Braila í Evrópukeppninni á laugardaginn. Ágúst Þór Jóhannsson tók enga áhættu í kvöld og kallaði marga af reyndari leikmönnum liðsins af velli þegar leið fram undir síðustu mínútur viðureignarinnar. Sigurinn var í höfn og var reyndar aldrei í mikilli hættu.

Valur lék hörkuvörn og keyrði miskunnarlaust hraðaupphlaup á ÍR-liðið í fyrri hálfleik og lagði þá grunn að sigrinum. Leikmenn ÍR komu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik. Meira bit var í varnarleiknum. Ágúst þjálfari Vals tók leikhlé eftir átta mínútur í síðari hálfleik þegar lið hans hafði aðeins skorað eitt mark.

Stjórn náðist á leiknum á ný undir stjórn Vals. ÍR-ingar reyndu hvað þeir gátu og mega eiga það að í síðari hálfleik þá héldu leikmenn áfram af dugnaði allt þangað til leiktíminn var á enda þrátt fyrir að þrítugan hamarinn væri verið að klífa.

Matthildur og Ísabella öflugar

Sérstaka athygli vöktu tveir ungir leikmenn ÍR-liðsins, annarsvegar Matthildur Lilja Jónsdóttir og hinsvegar Ísabella Schöbel Björnsdóttir markvörður. Matthildur Lilja fór á kostum í síðari hálfleik og reyndi mjög á þolrif varnarmanna Vals.

Ísabella hefur sýnt það áður að það býr mikið í henni sem markverði. Snerpan er mikil. Hún virtist vera sérstaklega laginn að þessu sinni við að loka á línumenn Vals, Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur og Hildigunni Einarsdóttur. Sérlega jákvætt er að sjá hversu öflug Ísabella er orðin en hún missti talsvert úr eftir að hafa hlotið höfuðhögg fyrir rúmum tveimur árum í leikjum með U17 ára landsliðinu.

Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 7/3, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 5, Thea Imani Sturludóttir 4, Sigríður Hauksdóttir 3, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 2, Arna Karitas Eiríksdóttir 1, Lilja Ágústsdóttir 1, Guðrún Hekla Traustadóttir 1, Hildigunnur Einarsdóttir 1, Auður Ester Gestsdóttir 1, Ásrún Inga Arnarsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 8, 36,3 % – Hafdís Renötudóttir 0 (samkvæmt HBStatz).

Mörk ÍR: Matthildur Lilja Jónsdóttir 6, Karen Tinna Demian 6/4, Sara Dögg Hjaltadóttir 4, Erla María Magnúsdóttir 2, Sigrún Ása Ásgrímsdóttir 1, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 1.
Varin skot: Ísabella Schöbel Björnsdóttir 9, 26,5% – Hildur Öder Einarsdóttir 4/1, 44,4%.

Leikjadagskrá og staðan í Olísdeildum.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -