- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ótrúlega glaður að skilja við HK á þessum stað

Elías Már Halldórsson kveður nú HK sem Olísdeildarlið. Mynd/Fjölnir, Þorgils G.
- Auglýsing -

„Við settum okkur það markmið áður en keppnin hófst í haust að við ætluðum okkur að vinna deildina. Vildum ekki sætta okkur við neitt annað,“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari HK, í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir að HK undir hans stjórn tryggði sér sigur í Grill 66-deild karla. Þar með tekur Kópavogsliðið sér sæti í Olísdeildinni á næsta keppnistímabili.

Skiptir mig miklu máli

„Ég hef unnið margra titla á ferlinum en þessi skiptir mig gríðarlega miklu máli. Ég tók við þessu verkefni hjá HK fyrir tveimur árum. Um þær mundir var liðið í statt í brekku. Síðan hefur verið mikill stígandi í öllu starfinu. Við erum með 22 manna leikmannahóp, þar af eru 18 uppaldir HK-ingar. Liðið er byggt upp á okkar strákum og öðrum gildum en mörg önnur lið. Það er ótrúlega gaman að sjá svona verkefni vaxa og dafna sem undirstrikar að það má alveg ná árangri með því að byggja á ungum og efnilegum piltum,“ segir Elías Már sem hefur verið yfirþjálfari HK samhliða þjálfun meistaraflokks karla síðustu tvö ár.

„Nú er að baki skrítnasta tímabil sem maður hefur kynnst á ferlinum með löngum hléum og því var virkilega notalegt að klára tímabilið með því að vinna deildina. Það hefur tekist frá fyrsta degi að halda mönnum á tánum. Strákarnir hafa verið ótrúlega samviskusamir og duglegir við æfingar allt tímabilið. Ég hef ekki þurft að hafa áhyggjur að menn hafi komið slakir til baka til leiks eftir hvert hlé,“ sagði Elías Már.

Markið var gulls ígildi

HK vann 16 leiki af 18. Tapaði fyrir Fjölni 26. september 26:25, og 25:23, fyrir Kríu 22. janúar. Liðið hafði betur í innbyrðisleikjum gegn Víkingi sem einnig vann 16 leiki í deildinni. Innbyrðisleikirnir við Víking skildu liðin að þegar upp var staðið og sigurmark Sigurvins Jarls Ármannssonar á síðustu sekúndum síðari leiksins við Víkinga í Víkinni 6. mars reyndist gulls ígildi. Markið tryggði HK sigur, 24:23, en það var í eina skiptið sem HK var yfir í leiknum.

HK – deildarmeistarar í Grill 66-deild karla 2021. Elías Már Halldórsson er lengst t.v. í aftari röð. Mynd/Ívar

Stoltur af strákunum

„Kapphlaupið á milli okkar og Víkinga hefur verið hreint ótrúlegt. Þeir hafa unnið alla leiki sína nema gegn okkur og við höfum ekki tapað stigi frá 22. janúar. Spennan hefur verið mikil og ég er stoltur af strákunum að hafa staðist pressuna sem hefur verið á okkur síðustu mánuði,“ sagði Elías Már sem telur ósennilegt annað, þótt hann hafi ekkert um það að segja, en að HK-liðið á næsta keppnistímabili í Olísdeildinni verði skipað nær sömu leikmönnum.

Eru reynslunni ríkari

„Ég sé ekki annað fyrir mér. Hópurinn er ungur auk þess sem nægur efniviður er fyrir hendi hjá félaginu. Strákarnir þurfa einn eða tvo reyslumenn með sér til að aðstoðar. Þeir eru reynslunni ríkari eftir tímabilið í fyrra. Ef HK fær réttu styrkingarnar þá hef ég engar áhyggjur af liðinu í Olísdeildinni á næsta keppnistímabili.“

Á leið til Noregs

Elías Már tók við þjálfun HK-liðsins fyrir tveimur árum þegar það hafði unnið sér sæti í Olísdeildinni. Liðið féll úr deildinni fyrir ári eftir að keppni var slaufað vegna kórónuveirunnar þegar nokkrum umferðum var ólokið. Nú skilur Elías Már við HK í Olísdeild á nýja leik en hann hefur störf hjá Fredrikstad boldklub í Noregi 1. júní. Hann heldur utan fljótlega eftir helgina.

Með langbesta liðið

„Það kom aldrei neitt annað til greina af minni hálfu og strákanna en að vinna deildina og sleppa umspilinu. Mín skoðun er sú að við séum með langbesta liðið í deildinni þótt við höfum orðið jafnir Víkingi að stigum. Ég er ótrúlega glaður að skilja við HK á þessum stað,“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari deildarmeistara HK í samtali við handbolta.is í gærkvöld.

Lokastaðan í Grill 66-deild karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -