- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ótrúlegt að ég standi í þessu sporum“

Teitur Örn, annar f.h. ásamt þjálfara og stjórnendum Flensburg. Mynd/Flensburg
- Auglýsing -

„Það er í rauninni ótrúlegt að ég standi í þessu sporum. Atburðarrásin hefur verið svo hröð síðustu daga að ég hef ekki náð að melta þetta allt saman ennþá,“ sagði Teitur Örn Einarsson nýr liðsmaður þýska stórliðsins Flensburg þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í dag eftir að félagið greindi frá því að það hafi samið við örvhentu skyttuna frá Selfossi.


Samningurinn gildir fram á mitt næst ár. Framhaldið verður metið að því loknu. Helstu örvhentu leikmenn Flensburg eru frá keppni vegna meiðsla. Af þeim sökum þurfti liðið ekki seinna en strax að fá örvhenta skyttu í hópinn.

Tvær æfingar og til Ungverjalands

„Ég hef mætt á tvær æfingar hjá liðinu og er síðan á leið til Ungverjalands á morgun þar sem við mætum Veszprém á fimmtudaginn. Maður byrjar ekki á neinum smáleik, stingur sér bara beint í djúpu laugina. Það verður bara skemmtilegt,“ sagði Teitur Örn sem verður í fyrsta sinn í búningi Flensburg fyrir framan þúsundir æstra Ungverja á heimavelli Veszprém á fimmtudagskvöldið. Uppselt var á leikinn á sunnudagskvöldið.

Gerist mjög hratt

Teitur Örn segir að fyrst hafi heyrst í forráðamönnum Flensburg á síðasta miðvikudag og á sunnudaginn hafi samningur verið undirritaður eftir að hann hafði staðist læknisskoðun í Flensburg. Hann verður þar með fjórtándi íslenski handknattleiksmaðurinn sem leikur með liði í þýsku 1. deildinni á yfirstandandi keppnistímabili.


„Ég verð bara að vera tilbúinn til þess að spila strax. Ástandið er þannig í liðinu vegna meiðsla. Ég ætla að gera mitt.“

Var byrjaður að horfa í kringum sig

Teitur Örn hefur verið í herbúðum sænska úrvalsdeildarliðsins IFK Kristianstad í hálft fjórða ár. Samningur hans við liðið átti að renna út í vor. Teitur Örn segir það ekkert hafa verið launungamál að hann hafi langað að reyna sig á stærra sviði.

„Ég var farinn að hugsa mér til hreyfings þegar þetta tækifæri bauðst. Það var ekki hægt að standast það þótt samningurinn sé bara til vorsins,“ sagði Teitur og bætti við að tækifærið hafi verið svo stórt að ekki hafi verið annað hægt en að láta slag standa þótt samningurinn sé aðeins fram í júní á næsta ári.

Opnar fleiri dyr

„Því má ekki gleyma að þegar maður fær tækifæri til þess að æfa og leika með liði eins Flensburg opnar það fyrir manni fleiri dyr en ef ég hefði verið áfram í Svíþjóð. Til viðbótar þá getur maður aldrei orðið nema betri leikmaður við það að æfa með heimsklassa leikmönnum á hverjum degi. Ég mun því nýta hvern dag í þessu umhverfi til hins ítrasta. Maður verður síðan og bíða og sjá hvert þetta leiðir mann. Ég er að minnsta kosti ekki kominn lengra í plönunum í bili en gera mitt besta hér á næstu vikum og mánuðum,“ sagði Teitur Örn.

Frábærar móttökur

Móttökur hjá félaginu hafa verið allrar hinar bestu, segir Teitur Örn. „Síðan ég kom þá hafa allir gert sitt besta um að mér líði sem best og líði eins og ég eigi heima hér. Maður verður var við það strax að Flensburg er toppklúbbur.“

Andrea varð eftir í Svíþjóð

Sambýliskona Teits Arnar, handknattleikskonan Andrea Jacobsen, varð eftir í Kristianstad þar sem hún mun að minnsta kosti ljúka leiktíðinni. „Við verðum að sjá til hvernig úr keppnistímabilinu spilast hjá okkur áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið. Við erum í þessu sporum í dag. Andrea er í hörkuflottu liði sem getur náð flottum árangri á keppnistímabilinu,“ sagði Teitur Örn Einarsson, nýjasti liðsmaður Flensburg í Þýskalandi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -