Óttast er að Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik hafi meiðst alvarlega á vinstri öxl í viðureign með Magdeburg gegn Füchse Berlin í þýsku fyrstu deildinni í dag. Atvikið átti sér stað þegar tæpar sjö mínútur voru til leiksloka. Gísli kom þá Magdeburg í 24-21 með marki eftir laglegt gegnumbrot en lenti illa á vinstri handleggnum. Eftir athugun gekk Gísli sárþjáður af vellinum ásamt sjúkrateymi liðsins. Talið er hugsanlegt að hann hafi farið úr vinstri axlarlið en hann hefur áður átt við alvarleg meiðsli á hægri öxl. Ástandið mun skýrast nánar þegar hann hefur komist undir læknishendur.
Magdeburg vann leikinn gegn Füchse Berlin 29-24 og komst þar með í 2. sæti deildarinnar. Ómar Ingi Magnússon skoraði fjögur mörk fyrir Magdeburg og átti tvær stoðsendingar. Gísli Þorgeir skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu áður en hann þurfti að hætta leik vegna meiðsla.