- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Óttast ekki samkeppnina – vanur að berjast fyrir sínu

Jennifer Kettemann framkvæmdastjóri Rhein-Nekcar Löwen, Arnór Snær Óskarsson og Oliver Roggisch, íþróttastjóri. Mynd/Rhein-Neckar Löwen
- Auglýsing -

„Ég er mjög spenntur fyrir að takast á við þá áskorun sem fylgir því að vera í hópi leikmanna Rhein-Neckar Löwen. Með þessu rætist draumur frá barnæsku um að leika með einu af stóru liðunum í Þýskalandi,“ sagði Arnór Snær Óskarsson handknattleiksmaður úr Vals í samtali við handbolta.is í gær eftir að tilkynnt var um vistaskipti hans í sumar og tveggja ára samning við þýsku bikarmeistarana Rhein-Neckar Löwen.

Gat ekki sagt nei, takk

„Það voru fleiri lið sem sýndu mér áhuga en þegar Rhein Neckar kom inn í myndina þá setti ég annað til hliðar, vildi láta á það reyna hvort Löwen væri raunverulegur möguleiki. Ég ákvað að grípa tækifærið. Það var ekkert hik á mér þótt að um stórlið væri að ræða. Ég gat ekki sagt nei, takk,“ sagði Arnór Snær léttur í bragði enda fyllsta ástæða til hjá þessum 23 ára gamla handknattleiksmanni. Lífið hefur snúist um handknattleik frá blauti barnsbeini. Víst að ekkert lát verður á í framtíðinni.

Með samningi sínum við Rhein-Neckar Löwen fetar Arnór Snær í fótspor nokkurra Íslendinga. Auk Ýmis Arnar sem þegar er í herbúðum félagsins hafa m.a. Alexander Petersson, Guðjón Valur Sigurðsson, Ólafur Stefánsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Róbert Gunnarsson og Stefán Rafn Sigurmannsson leikið með RNL. Einnig þjálfaði Guðmundur Þórður Guðmundsson lið RNL frá 2010 til 2014.
Til viðbótar lék Guðmundur Hrafnkelsson, markvörður, með Kronau-Östringen (2003-2005) sem var forveri RNL.

Evrópudeildin opnaði glugga

Arnór Snær segir að þátttaka Vals í Evrópudeildinni í vetur hafi tvímælalaust verið stóri glugginn sem opnaðist fyrir hann í átt til Mannheim og félagsins sem er sprottið upp í smábæjunum Kronau og Baden Östringen.

„Ég er viss við að það hjálpaði mér mikið að við lékum við þýskt lið í Evrópudeildinni. Þjálfarar þýskra liða fylgjast með leikjum annarra þýskra liða og reka þar af leiðandi augun í leikmenn sem vekja athygli þeirra,“ sagði Arnór Snær.

Skoðaði allt í krók og kring

Arnór Snær gekk frá sínum málum hjá Rhein-Neckar Löwen í lok febrúar þegar hann sótti félagið heim daginn eftir að hafa leikið með Val gegn Göppingen í síðari umferð 16-liða úrslita Evrópudeildarinnar. Strax eftir leikinn í Göppingen hélt Arnór Snær rakleitt til Mannheim og skoðaði aðstæður sem allar eru til fyrirmyndar.

„Ég skoðaði allt í krók og kring í fylgd íþróttastjórans, Oliver Roggisch fyrrverandi landsliðsmanns Þýskalands. Ég kom á æfingasvæðið, í keppnishöllina og á skrifstofuna og fleira. Um er að ræða toppaðstæður sem mér leist vel á. Roggisch er toppmaður sem fylgdi mér hvert fótmál,“ sagði Arnór Snær.

Framundan er hörð samkeppni hjá sterku félagsliði þar sem ekkert verður gefið eftir. Enginn er annars bróðir í leik þegar komið er út í atvinnumennsku í íþróttum. Arnór Snær segist gera sér grein fyrir að samkeppnin verði hörð en hann óttast ekki að taka þátt í henni.

Óhræddur að taka slaginn

„Ég er ekki óvanur að berjast fyrir mínu í handboltanum, til dæmis hjá Val, svo ég óttast ekki harða samkeppni hjá Löwen. Ég mun berjast fyrir tilverurétti mínum þar eins og annarstaðar. Það verður bara gaman. Þetta er fyrst og fremst eftirvænting. Ég er óhræddur við að taka slaginn.“

Gott að hafa Ými og Margréti

Til Þýskalands fer Arnór Snær í lok júní eða snemma í júlí, allt eftir því hvenær Rhein-Neckar Löwen hefur undirbúning fyrir næsta keppnistímabil. Hann segir að mikilvægt verði fyrir sig að geta leitað til Ýmis Arnar Gíslasonar leikmanns Rhein-Neckar Löwen og Margrétar eiginkonu hans meðan verið sé að koma sér fyrir. Leit stendur nú yfir að íbúð. Hefur Ýmir Örn m.a. verið Arnór innan handar við leitina en einnig kemur félagið að leitinni.

Byrja á íbúðinni

„Ef þau [Ýmir og Margrét] samþykkja þá mun ég örugglega leita eitthvað á þeirra náðir fyrst á meðan ég verð að koma mér fyrir og kynnast umhverfinu ytra. Ýmir hefur aðeins hjálpað varðandi íbúðir. Það er best að ljúka því máli áður en maður fer út svo Ýmir og Margrét fái ekki þriðja barnið á heimilið,“ sagði Arnór Snær Óskarsson handknattleiksmaður léttur í lund.

Rhein-Neckar Löwen var til árið 2002 við sameiningu TSG Kronau og TSV Baden Östringen. Í fyrstu keppti liðið undir merkjum Kronau-Östringen en tók upp heitið Rhein-Neckar Löwen árið 2007. RNL vann þýska meistaratitilin 2016 og 2017, bikarkeppnina 2018 og 2023 og varð meistari meistaranna 2016, 2017 og 2018. RNL vann Evrópubikarkeppnina, sem nú kallast Evrópudeildin, árið 2013. Þá var Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari liðsins. Alexander Petersson og Stefán Rafn Sigurmannsson voru á meðal leikmanna.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -