- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ræða við Alfreð næstu daga um nýjan samning

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Þýska handknattleikssambandið ætlar á næstu dögum að ganga til viðræðna við Alfreð Gíslason þjálfara þýska karlalandsliðsins um nýjan saming sem taki við af núverandi samningi sem gengur út í sumar. Axel Kromer íþróttastjóri þýska handknattleikssambandsins staðfestir fyrirætlanir sambandsins í samtali við Handballwoche. Alfreð tók við þjálfun landsliðsins í mars 2020. Fyrir EM sagðist hann hafa áhuga á að halda áfram þjálfun landsliðsins næstu árin.

EM gert upp

Alfreð fundaði með stjórn þýska handknattleikssambandsins á dögunum þar sem farið var yfir nýafstaðið Evrópumót. Einnig lagði Markus Gaugisch þjálfari kvennalandsliðsins spilin á borðið á fundinum eftir HM kvenna í desember.

Forkeppni ÓL er framundan

Framundan hjá Alfreð og þýska landsliðinu er þátttaka í forkeppni Ólympíuleikanna 14. til 17. mars. Leikir þýska landsliðsins fara fram í Hannover. Auk þýska landsliðsins sækjast landslið Alsír, Austurríkis og Króatíu eftir tveimur farseðlum á leikana frá þessum riðli sem er einn af þremur í forkeppninni. Sleginn verður varnagli í viðræðum sambandsins við Alfreð ef svo fer að þýska landsliðinu takist ekki að tryggja sér þátttökurétt á leikunum í sumar.

Hefur setið undir gagnrýni

Nokkuð hefur verið rætt og ritað í þýskum fjölmiðlum um frammistöðu þýska landsliðsins á Evrópumótinu sem fram fór í Þýskalandi í síðasta mánuði en það hafnaði í fjórða sæti. Þykir sumum það ekki vera viðunandi árangur og hafa gagnrýnt Alfreð og leikaðferðir hans. Aðrir hafa sagt árangurinn vera góðan miðað við þann hóp sem Alfreð hafði úr að spila.

Alfreð svaraði fullum hálsi

Meðal þeirra sem gangrýnt hafa Alfreð hvað harðast er Bob Hanning framkvæmdastjóri Füchse Berlin og þjálfari 2. deildarliðsins Potsdam. Hanning hefur einnig átt sæti í stjórn þýska handknattleikssambandsins og lengi verið fyrirferðamikill í umræðum um handknattleik í Þýskalandi.

Alfreð svaraði Hanning fullum hálsi og sagði hann ekki vera marktækan þegar kemur að alþjóðlegum handknattleik. Alfreð sagðist taka mark á orðum þjálfara í efstu deild þýska handknattleiksins en Hanning.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -