- Auglýsing -
- Auglýsing -

Reynir Þór stjórnaði flugeldasýningu Framara í síðari hálfleik

Eiður Rafn Valsson skoraði fimm mörk fyrir Fram í kvöld. Ljósmynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Framarar fóru með himinskautum í síðari hálfleik gegn Haukum í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal í kvöld og unnu Hauka með þriggja marka mun, 37:34, í fjórðu umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Framliðið skoraði 21 mark í síðari hálfleik þegar ekki stóð steinn yfir steini í varnarleik Hauka sem hafa nú tapaði tveimur leikjum í röð á fáeinum dögum. Framarar eru komnir upp að hlið Gróttu og Hauka í annað til fjórða sæti með sex stig eftir þrjá sigurleiki í röð.

Fyrri hálfleikur var mjög hraður og skemmtilegur fyrir augað. Lengst af var jafnt með þeirri undantekningu að Fram komst um skeið fjórum mörkum yfir, 9:5, eftir að hafa skoraði fjögur mörk á stuttum tíma, þar af þrisvar eftir hraðaupphlaup. Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka var fljótur að taka leikhlé og setja undir lekann.
Annars var með ólíkindum að Haukar skildu ekki vera með gott forskot í hálfleik. Markverðir liðsins vörðu 11 skot í fyrri hálfleik meðan markverðir Fram voru með fjögur skot varin. Staðan eftir fyrri hálfleik 16:16.

Framarar slógu upp sóknarveislu í síðari hálfleik með Reynir Þór Stefánsson í aðalhlutverki. Hann var fremstur meðal jafningja. Auk þess að skora sjö af átta mörkum sínum í leiknum í síðari hálfleik þá fóðraði hann samherja sína á marktækifæri og vann varnarmenn Hauka hvað eftir annað af leikvelli. Þeir réðu ekkert við Reyni Þór.

Ekki stóð steinn yfir steini í vörn Hauka. Það var alveg sama hversu öflugir Haukamenn voru í sókninni. Þeir náðu ekki að hafa undan sóknarþunga Fram-liðsins sem lék við hvern sinn fingur. Auk Reynis Þórs var Ívar Logi Styrmisson frábær og lék eflaust einn sinn besta leik í búningi Fram, 11 mörk í 13 skotum. Eiður Rafn Valsson nýtti færi sín afar vel. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var afar góður í fyrri hálfleik en hvarf í skugga annarra í síðari hálfleik. Rúnar Kárason lék sinn besta leik á tímabilinu.

Varnarleikur Fram var hinsvegar misjafn og markvarslan ekkert til að hrópa húrra fyrir. Þess gerist ekki endilega þörf þegar sóknarleikurinn gengur jafn vel að þessu sinni.
Haukar fá HK-inga í heimsókn á miðvikudaginn. Daginn eftir sækja Framarar liðsmenn Aftureldingar heim.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Mörk Fram: Ívar Logi Styrmisson 11/1, Reynir Þór Stefánsson 8, Eiður Rafn Valsson 7, Rúnar Kárason 5, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 5, Magnus Öder Einarsson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 5, 23,8% – Arnór Máni Daðason 4, 18,2%.

Mörk Hauka: Skarphéðinn Ívar Einarsson 8, Hergeir Grímsson 6, Andri Fannar Elísson 4/4, Þráinn Orri Jónsson 3, Össur Haraldsson 3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 3, Sigurður Snær Sigurjónsson 2, Freyr Aronsson 1, Birkir Snær Steinsson 1, Adam Haukur Baumruk 1, Ólafur Ægir Ólafsson 1, Ásgeir Bragi Þórðarson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 9/1, 30% – Vilius Rasimas 7, 30,4%.

Tölfræði HBStatz.

Handbolti.is var í Lambhagahöllinni og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -