- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Róður KA/Þórs þyngist eftir tap fyrir Stjörnunni

Eva Björk Davíðsdóttir hefur á ný samið við Stjörnuna. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Stjarnan endurheimti sjötta sæti Olísdeildar kvenna í kvöld eftir að hafa lagt KA/Þór, 27:25, KA-heimilinu. Afturelding náði sjötta sætinu af Stjörnunni um skeið í dag eftir sigur í Vestmannaeyjum.

Darija Zecevic markvörður Stjörnunnar, reyndist KA/Þórsliðinu óþægur ljár í þúfu í leiknum. Á henni steyttu margar sóknir liðsins.

Áfram syrtir í álinn hjá KA/Þórsliðinu í neðsta sæti. Það er nú þremur stigum á eftir Aftureldingu sem er í næst neðsta sæti. KA/Þór á fjóra leiki eftir, þar á meðal heimaleik við Aftureldingu 16. mars.

Sjötta sæti Olísdeildarinnar er eftirsótt. Liðið sem hafnar í því sæti kemst í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og sleppur við umspil um sæti í Olísdeildinni við lið úr Grill 66-deildinni. Brugðið getur til beggja vona í umspilinu eins og sýndi sig síðasta vor.

Stjarnan var mikið sterkari í fyrri hálfleik og lengst af síðari hálfleiks í KA-heimilinu í dag. Aftur var sóknarleikurinn ekki eins og best verður á kosið hjá Akureyrarliðinu. Ekki hjálpaði það liðinu heldur að Zecevic var í ham í markinu, ekki síst í fyrri hálfleik þegar Stjarnan náði mest sex marka forskoti. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 14:8, Stjörnunni í vil.

Þrátt fyrir erfiða stöðu þá náði KA/Þórsliðið aðeins að rétta sinn hlut á lokakaflanum með því að skora fimm af síðustu sex mörkunum. Það var hinsvegar of lítið og of seint.

Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.

Mörk KA/Þórs: Isabella Fraga 5/3, Nathalia Soares Baliana 5, Telma Lísa Elmarsdóttir 4, Katrín Vilhjálmsdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 3, Martha Hermannsdóttir 2, Aþena Einvarðsdóttir 1, Agnes Vala Tryggvadóttir 1, Lydía Gunnþórsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 8, 25,8% – Sif Hallgrímsdóttir, 2, 40%.

Mörk Stjörnunnar: Eva Björk Davíðsdóttir 8/4, Anna Karen Hansdóttir 6, Helena Rut Örvarsdóttir 6, Vigdís Arna Hjartardóttir 3, Embla Steindórsdóttir 2, Anna Lára Davíðsdóttir 1, Elísabet Gunnarsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 18/2, 42,9%.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -