- Auglýsing -
- Auglýsing -

Roland verður áfram með úkraínsku meisturunum

Roland Eradze t.h. ræðir við leikmann HC Motor. Mynd/Motor
- Auglýsing -

Roland Eradze verður áfram í þjálfarateymi úkraínska handknattleiksliðsins HC Motor á næsta keppnistímabili. Roland staðfesti þetta við handbolta.is í dag. Hann hefur verið aðstoðarþjálfari úkraínska meistaraliðsins í tvö ár en óvissa hefur skiljanlega ríkt um framhaldið vegna ástandsins í Úkraínu í kjölfar innrásar Rússa í landið.


HC Motor-liðið hefur ekkert leikið eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í lok febrúar en liðsmenn og þjálfarar voru að koma frá kappleik í Meistaradeild Evrópu í Póllandi þegar innrásin hófst. Roland og fleiri komust við illan leik úr landi á fyrstu dögum stríðsins.


Eins og kom fram handbolta.is á dögunum þá verður HC Motor-liðið með bækistöðvar í Düsseldorf í Þýskalandi á næsta keppnistímabili. Til stendur að liðið komi þar saman ásamt þjálfurunum og aðstoðarfólki 16. júlí að sögn Rolands. Áformað er að liðið leiki sem gestur í þýsku 2. deildinni og á morgun skýrist hvort HC Motor fær keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu.


HC Motor hefur um árabil verið fremsta handknattleikslið Úkraínu.
Aðalþjálfari HC Motor er Gintaras Savukynas sem íslenskir handknattleiksáhugamenn þekkja vel enda lék hann og þjálfaði um árabil hér á landi í kringum aldamótin. Savukynas er einnig landsliðsþjálfari Litáen í karlaflokki.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -