Aðeins eru rétt rúmar fjórar vikur þangað til karlalandsliðið í handknattleik kemur saman næst til æfinga og keppni. Framundan eru leikir í þriðju og fjórðu umferð undankeppni EM 2026. Íslenska landsliðið mætir Grikkjum heima og heiman 12. og 15. mars. Fyrri leikurinn verður í Chalkida um 80 km austur af Aþenu.
Síðari viðureignin fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 15. mars klukkan 16.
Eftir því sem handbolti.is kemst næst stendur til að íslenska landsliðið komi saman í Chalkida mánudaginn 10. mars og mun liðið væntanlega ná tveimur til þremur æfingum fyrir viðureignina gegn Grikkjum sem fram fer í Tasos Kampouris-keppnishöllinni. Hún rúmar um 2.000 áhorfendur.
Íslenska landsliðið stendur vel að vígi í riðli þrjú í undankeppni EM með fjögur stig eftir sigur á Bosníu í Laugardalshöll, 32:26, og 30:25 sigur á Georgíu í Tiblísi. Báðir leikir fór fram snemma í nóvember. Grikkir unnu Georgíumenn í nóvember, 27:26, í Chalkida en töpuðu fyrir Bosníu, 27:26, í Cazin í Bosníu.
Tveir síðustu leikir Íslands í undankeppni EM fara fram 7. maí í Tuzla í Bosníu og sunnudaginn 11. maí í Laugardalshöll gegn landsliði Georgíu.
Valsmenn gistu í Chalkida
Þess má geta að um tíma stóð til að síðari úrslitaleikur Vals og Olympiakos í Evrópubikarkeppni karla í handknattleik síðasta vor færi fram í Chalkida. Fáeinum dögum áður en leikurinn fór fram ákváðu forráðamenn Olympiakos að færa leikinn til Aþenu.
Valsliðið bjó hinsvegar í góðu yfirlæti í Chalkida og ferðaðist þaðan til Aþenu á leikdaginn og aftur til baka um kvöldið með styttuna góðu sem liðið fékk að launum fyrir sigurinn í Evrópubikarkeppninni.