- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Rúnar: Landsliðsferlinum er lokið

Rúnar Kárason hefur leikið vel fyrir Ribe-Esbjerg í verur. Mynd/Ribe-Esbjerg HH A/S
- Auglýsing -

„Ég er bara sáttur stöðu mála. Ég náði að leika 100 landsleiki, skora mörg mörk og taka þátt í nokkrum stórmótum. Ég er stoltur af að hafa hafa fengið tækifæri til þess að leika með landsliðinu í eitt hundrað skipti og það er góður áfangi að mér finnst,“ segir Rúnar Kárason, handknattleiksmaður hjá Ribe-Esbjerg í Danmörku spurður um stöðu sína hjá íslenska landsliðinu þegar handbolti.is heyrði í honum á dögunum.

Þá um leið fann ég fyrir miklum létti af því að mig langaði ekki að vera þarna

Hann hefur ekki leikið með landsliðinu í handknattleik síðan snemma árs 2019 í aðdraganda HM sem haldið var í Danmörku og Þýskalandi. Athygli vekur að Rúnar er ekki í 35 manna hópi sem Guðmundur Þórður Guðmundsson valdi í síðasta mánuði fyrir HM í Egyptalandi.  Spurður hvort hann hafi gefið landsliðið upp á bátinn eða hvort þjálfarinn hafi gefist upp á honum segist Rúnar ekkert velta sér upp úr því. Aðalatriðið sé að hann sé sáttur við stöðu mála. Rúnar lítur svo á að hann hafi leikið sinn síðasta landsleik. Landsliðsferlinum er lokið.

Um leið og við komum heim var ljóst að ég var ekki lengur inni í myndinni

Um endalok þess ferils svarar Rúnar aðspurður.

„Þegar ég kom til æfinga landsliðsins í lok desember 2018 sagði ég Guðmundi [Þórði Guðmundssyni landsliðsþjálfara] að ég hafi verið meiddur sé ekki í toppstandi en fengi ég að æfa skynsamlega þá hefði ég trú á að ég kæmist í gang fyrir HM. Hann var kannski ekki á sömu skoðun. Þegar á reyndi þá var ég ekki tilbúinn í slaginn, líkamlega var ég ekki á þeim stað sem til þurfti það var ljóst. Íslenska landsliðið leikur mjög líkamlega krefjandi handbolta sem var ekki fyrir mig eins og sakir stóðu og standa. Á æfingamóti í Noregi skömmu fyrir HM leið mér ekki vel og tókst ekki að gera það sem ég vildi geta gert,“ segir Rúnar og bætir við að eftir heimkomuna frá Noregi hafi strax verið ljóst að veðja ætti á aðra kosti en hann á HM.

Annar maður kominn á æfingu

„Um leið og við komum heim var ljóst að ég var ekki lengur inni í myndinni. Guðmundur hafði kallað Teit Örn Einarsson inn í liðið til æfinga. Guðmundur sagði mér í framhaldinu að vegna þess að mér hefði ekki tekist að spila mig í það form sem vonir stóðu til þá færi ég ekki með á HM. Þá um leið fann ég fyrir miklum létti af því að mig langaði ekki að vera þarna,“ segir Rúnar.

ekki sanngjarnt að ég héldi úti leikmönnum sem dauðlangaði til að vera í landsliðinu

„Því miður þá gekk kollegum mínum í hægri skyttunni ekki vel á HM. Fyrir vikið þá kveið mér fyrir eftir hvern leik að Guðmundur myndi slá á þráðinn segja mér að koma. Á þessum tíma fann ég það að þótt hann hefði haft samband þá væri ég ekki tilbúinn að gefa kost á mér aftur í landsliðið, að minnsta kosti ekki að sinni.“

Ekkert hafði breyst

Guðmundur hafði aftur samband við mig þegar kom að næstu leikjum eftir HM og eins hafði hann samband við mig síðasta haust eftir að ég hafði átt mjög góða leiki. Bæði hann og Gunnar Magnússon töluðu þá við mig. Ég svaraði þeim einfaldlega þannig að því miður þá hefði hlutirnir ekki breyst af minni hálfu. Ég hefði ekki áhuga á landsliðinu um þær mundir og þess vegna væri ekki sanngjarnt að ég héldi úti leikmönnum sem dauðlangaði til að vera í landsliðinu,“ segir Rúnar sem er sáttur við ákvörðun sína og hafa þar með lokað ákveðnum kafla á handboltaferlinum.

Var í stóra hópnum fyrir EM

„Ég var reyndar í stóra hópnum fyrir EM í byrjun þess árs. Þegar Guðmundur talaði við mig áður en hann kynnti þann hóp sagði ég honum að ef þeir sem væru í minni stöðu gætu ekki tekið þátt og landsliðið lenti í vandræðum gæti hann haft mig. Af því varð ekki og ekkert meira um það að segja.

Ég er ánægður að hafa tekið þessa ákvörðun. Við eigum bara marga flotta handboltamenn sem getað leikið í minni stöðu. Meðal þeirra eru Ómar Ingi Magnússon, Viggó Kristjánsson, Teitur Örn og Kristján Örn Kristjánsson.“

Best fyrir alla

„Ég held að sú ákvörðun mín að stíga til hliðar þegar Guðmundur ákvað að velja mig ekki í hópinn á sínum tíma hafi verið best fyrir alla. Ég er að minnsta kosti mjög sáttur. Til viðbótar veit ég að þessir strákar sem ég nefndi hér að framan passi betur inn í leiktstíl Guðmundar þjálfara en ég geri,“ sagði Rúnar Kárason, handknattleiksmaður í samtali við handbolta.is á dögunum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -