- Auglýsing -
- Auglýsing -

Rússar komnir í bann hjá IHF

- Auglýsing -

Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, hefur loksins bæst í hóp alþjóðlegra íþróttasambanda sem útilokar rússnesk og hvít-rússnesk lið frá öllum mótum á þess vegum vegna innrásar Rússa í Úkraínu.


Vika er síðan Alþjóða Ólympíunefndin, IOC, óskaði eftir því að alþjóðleg sérsambönd heimiluðu ekki íþróttafólki frá Rússland og Hvíta-Rússlandi að taka þátt í alþjóðlegri keppni. Síðar sama dag ákvað Handknattleikssamaband Evrópu, EHF, að grípa í taumana. Mörgum þykir IHF hafa dregið lappirnar að fylgja í kjölfarið.


Eins og EHF þá bannar IHF ekki aðeins landsliðum og félagsliðum frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi að taka þátt í mótum á sínum vegum heldur eru einnig starfskraftar dómara og eftirlitsmanna frá löndunum tveimur afþakkaðir. Sama á við um rússneska og hvít-rússneska stjórnar- og nefndarmenn á vegum IHF. Þeir verða ekki hafðir með í ráðum á meðan bannið stendur yfir. Eins verður þeim óheimilt að mæta á fundi eða aðrar samkomur sem haldnar eru undir merkjum IHF. Allt er þetta gert til að mæta óskum IOC.


Í yfirlýsingu sinni fordæmir IHF innrás Rússlands í Úkraínu um leið og lýst er yfir stuðningi og samhug með þeim sem fyrir barðinu á henni.


Meðal móta sem rússneskt íþróttafólk tekur ekki þátt í á vegum IHF á árinu eru heimsmeistaramót í kvennaflokki, skipuð landsliðum 20 ára og yngri og 18 ára og yngri. Einnig hefur rússneska karlalandsliðið í strandhandknattleik verið strikað út af lista yfir þátttökulið á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Grikklandi í sumar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -