- Auglýsing -
- Auglýsing -

Rússar og Hvít-Rússar í bann frá evrópskum handknattleik

Mynd/EHF
- Auglýsing -

Framkvæmdastjórn Handknattleikssambands Evrópu, EHF, samþykkti í kvöld að vísa landsliðum og félagsliðum frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi nú þegar úr mótum á vegum EHF sem standa yfir. Um leið hefur félagsliðum og landsliðum verið bannað að taka þátt í keppni á vegum EHF sem stendur fyrir dyrum og er ekki þegar hafin. Bannið gildir þangað til annað verður ákveðið.


Bannið tekur einnig yfir dómara og eftirlitsmenn á öllum kappleikjum og mótum á vegum EHF. Þeir verða ekki kallaðir til starfa. Sama á við um fólk sem situr í stjórnum og nefndum EHF og koma frá þessum tveimur ríkjum. Það verður ekki haft með í neinum ráðum.


Ákvörðun EHF í kvöld er afdráttarlaust og er tekin í framhaldi af tilmælum Alþjóða Ólympíunefndarinnar í morgun þar sem skorað var á alþjóðleg íþróttasambönd að útiloka Rússa og Hvít-Rússa þegar í stað frá öllum alþjóðlegum mótum vegna innrásar Rússa í Úkraínu og aðildar Hvít-Rússa í þeim aðgerðum.


EHF segir að innrás Rússlands í Úkraínu gangi þvert á gildi sambandsins. Þess vegna hafi ekki verið hjá því komist að bregðast við með þessum hætti.


Hvorki íslensk landslið né félagslið áttu í fyrirsjáanlegri framtíð að mæta liðum frá ríkjunum tveimur sem nú hafa verið sett í keppnisbann í evrópskum handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -