- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sagan segir að ýmislegt getur gerst í bikarkeppninni

Fanney Þóra Þórsdóttir var markahæst hjá FH í dag. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

FH á núna sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar í kvennaflokki, Coca Cola-bikarnum, í fyrsta sinn frá árinu 2012. Fanney Þóra Þórsdóttir, fyrirliði FH-inga, segir mikla tilhlökkun ríkja í herbúðum FH fyrir undanúrslitaleiknum við Íslandsmeistara KA/Þórs sem hefst klukkan 20.30 á morgun, fimmtudag, í Schenkerhöllinni á Ásvöllum.

Vissulega ólíkt hluskipti

„Það hefur margsýnt sig í bikarkeppninni að það getur ýmislegt gerst en vissulega er staðan sú að KA/Þór varð Íslandsmeistari í vor á sama tíma og við féllum úr Olísdeildinni. Ég minni á að það ekki langt síðan KA/Þór var litla liðið í baráttunni og komst alla leið í úrslitaleikinn,“ sagði Fanney Þóra í samtali við handbolta.is.

FH hefur átján sinnum leikið til undanúrslit í bikarkeppni kvenna. Fyrst árið 1976, þegar bikarkeppnin var haldin í fyrsta sinn í kvennaflokki, og síðast 2012. Í sex skipti hefur FH unnið undanúrslitaleik og þar af leiðandi leikið til úrslita og einu sinni orðið bikarmeistari, 1981.
FH og KA/Þór hafa einu sinni áður mæst í undanúrslitum. Það gerðist 2009. FH vann, 36:21 og lék við Stjörnuna í úrslitaleik.

Höfum oft leikið vel gegn sterkari liðum

„Við verðum að einblína á okkar leik, þá sérstaklega varnarleikinn. Með honum kemur svo margt annað. Um leið verður að gæta að spennustiginu. Það má ekki verða of hátt. Við höfum oft leikið vel gegn liðum sem eru sögð vera sterkari en við. Ef okkur tekst að gera það verður úr hörkuskemmtilegur leikur,“ sagði Fanney Þóra.


FH-liðið hefur farið vel af stað í Grill66-deildinni í haust og unnið tvo fyrstu leiki sína auk sigurs á Víkingi í átta liða úrslitum Coca Cola-bikarsins.

Leikur KA/Þórs og FH í undanúrslitum Coca Cola-bikars kvenna hefst klukkan 20.30 á fimmtudagskvöld. Leikið verður í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í Hafnarfirð. Sigurliðið leikur til úrslita við Fram eða Val á laugardaginn kl. 13.30.
 Miðasala á alla leikina í Coca Cola-bikarnum fer fram í gegnum appið Stubbur.

Hefðbundin undirbúningur og eftirvænting

Fanney Þóra segir að undirbúningur FH-liðsins verði með hefðbundnu sniði eins og fyrir hvern annan leik.


„Fyrst og síðast ríkir eftirvænting hjá okkur í FH-liðinu. Fæstar okkar hafa tekið þátt í svona stórum leikjum. Kannski helst leikið til úrslita í bikarkeppni yngri flokkanna. Við bindum vonir við okkur sjálfar og að okkur takist að leika sem best. Um leið fæst kærkomin reynsla,“ segir Fanney Þóra Þórsdóttir, leikmaður FH.

KA/Þór leikur að þessu sinni í fjórða sinn í undanúslitum bikarkeppninnar, Coca Cola-bikarsins, í kvennaflokki. Árin 2009 og 2018 féll liðið úr leik í undanúrslitum. Í fyrra skiptið fyrir FH og í það síðara á móti Haukum. Árið 2020 vann KA/Þór lið Hauka í æsispennandi undanúrslitaleik og lék til úrslita við Fram. 
Þór Akureyri lék í undanúrslitum 1980 og vann Ármann, 20:18, og lék í framhaldinu til úrslita við Fram í Íþróttaskemmunni á Akureyri og tapaði, 20:11.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -