Handknattleikskonan Sandra Erlingsdóttir stefnir á að byrja að leika á ný með þýsku bikarmeisturunum TuS Metzingen snemma í næsta mánuði, innan við þremur mánuðum eftir að hún eignaðist sitt fyrsta barn, Martin Leo. Sandra segir m.a. frá þessum áformum sínum í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið í dag.
Sandra hefur ótrauð æft síðustu vikur auk þess sem hún sló ekki slöku við á meðgöngunni.
Í viðtalinu segist Sandra ennfremur hiklaust stefna á sæti í landsliðinu sem tekur þátt í Evrópumótinu sem hefst í lok nóvember, eftir rétt rúma tvo mánuði. Gangi áform hennar eftir fer amma Martins Leo með og gætir drengsins meðan Sandra æfir og leikur.
Sandra var í aðalhlutverki hjá íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Danmörku og Noregi undir lok síðasta árs hvar íslenska landsliðið vann forsetabikarinn.