- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sanngjarn baráttusigur Aftureldingar

Einar Ingi Hrafnsson, Aftureldingu. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Afturelding vann Selfoss, 26:24, að Varmá í kvöld í hörkuleik þar sem heimamenn voru með yfirhöndina frá upphafi til enda, þar á meðal 14:12, að loknum fyrri hálfleik. Afturelding hefur þar með fimm stig að loknum þremur leikjum en Selfoss er með þrjú stig.

Skömmu fyrir leikinn í kvöld bárust fregnir af því að tveir leikmenn Aftureldingar, Halldór Ingi Jónasson og hinn baráttuglaði prímusmótor liðsins, Gunnar Kristinn Malmquist Þórsson, væri komnir í sóttkví. Auk þess tók hinn ungi Þorsteinn Leó Gunnarsson út leikbann. Fyrir utan þessa þrjá eru leikmenn á sjúkralista. Það var Mosfellingum hinsvegar nokkur huggun harmi gegn að Selfyssingurinn í liði þeirra, Guðmundur Árni Ólafsson, mætti til leiks eftir að hafa jafnaði sig af fingurbroti.

Vængbrotið lið Aftureldingar byrjaði leikinn af miklum og krafti. Sóknarleikurinn gekk afar vel og liðið leysti mjög vel 5/1 vörn Selfoss-liðsins. Ekki spillti fyrir hjá Aftureldingu að Arnór Freyr Stefánsson var í ham í markinu. Hann varði allt hvað af tók, m.a. tvö vítaköst en alls fóru þrjú vítaköst í vaskinn hjá Selfyssingum í fyrri hálfleik. Reyndar brást leikmönnum liðanna bogalistin í sjö vítaköstum í leiknum.

Þegar innan við tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks var Aftureldingarliðið fimm mörkum yfir, 11:6, og fékk möguleika á að auka forskotið upp í sex mörk. Það tókst ekki. Selfoss-liðið sótti heldur á undir lok hálfleiksins og náði að minnka muninn í tvö mörk, 14:12, áður en  leiktíminn í hálfleiknum var úti.

Leikmenn Selfoss voru ekki lengi að jafna metin í síðari hálfleik. Þeir voru komnir í 5 plús 1 vörn auk þess sem Vilius Rasimas varði vel í markinu, m.a. tvö vítaköst frá Guðmundi Árna.  Guðmundur Hólmar Helgason átti stórleik hjá Selfoss-liðinu, jafnt í vörn sem sókn þar sem hann dró liðið áfram.  En það dugði ekki til leiksloka.

Selfoss-liðinu tókst aldrei að komast yfir þótt það jafnaði metin nokkrum sinnum, m.a. 19:19, þegar 12 mínútur voru til leiksloka. Afturelding svaraði með þremur mörkum í röð, 22:19, þegar tíu mínútur voru eftir af leiktímanum.

Selfoss-liðinu tókst að aldrei að jafna metin eftir það og einbeittir og ákveðnir leikmenn Aftureldingar héldu sínu striki og unnu sanngjarnan sigur.

Selfoss liðið olli vonbrigðum að þessu sinni. Leikmenn gerðu alltof mörg einföld mistök og á stundum fannst manni einsog þeir ætluðu að fara auðveldu leiðina í gegnum leikinn.

Aftureldingarmenn léku alls ekki gallalausan leik en þeir héldu haus frá upphafi og brotnuðu aldrei þótt á móti blési.

Guðmundur Árni Ólafsson og Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoruðu fimm mörk hvor og voru markahæstir. Guðmundur Hólmar var markahæstur hjá Selfossi með átta mörk.  Atli Ævar Ingólfsson var næstur með fimm mörk.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -