Færeyski landsliðsmarkvörðurinn Nicholas Satchwell reyndist nýliðum Víkings þrándur í götu í kvöld þegar nýliðarnir sóttu KA-menn heim í annarri umferð Olísdeildar karla. Satchwell, sem virðist hafa náð sér vel af bakmeiðslum sem hrjáðu hann áður en leiktíðin hófst, varði allt hvað af tók í leiknum, alls 16 skot og var með 47% hlutfallsmarkvörslu. Hann lagði grunninn að öruggum sigri KA-liðsins, 23:18.
Þar með hefur KA unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni á keppnistímabilinu, báða á móti nýliðum deildarinnar, HK og Víkingi. Víkingar bíða hinsvegar enn eftir fyrsta sigrinum.
Staðan að loknum fyrri hálfleik í KA-heimilinu í kvöld var 12:9. Heimaliðið var með yfirhöndina frá upphafi til enda og í raun var ekki mikil spenna í leiknum. Satchwell sá til þess. Eins var Patrekur Stefánsson í miklum ham með sjö mörk í átta tilraunum auk þess sem hann var maðurinn á bak við þrjú mörk til viðbótar fyrir KA-liðið.

Ragnar Snær Njálsson var með 10 löglega stopp í vörninni og Einar Rafn Eiðsson átti átta sköpuð færi fyrir KA.
Mörk KA: Patrekur Stefánsson 7, Einar Rafn Eiðsson 6/3, Óðinn Þór Ríkharðsson 3, Arnar Freyr Arnarsson 2, Einar Birgir Stefánsson 2, Pætur Mikkjalsson 1, Jón Heiðar Sigurðsson 1, Jóhann Geir Sævarsson 1.
Varin skot: Nicholas Satchwell 16, 47,1%.
Mörk Víkings: Gísli Jörgen Gíslason 4, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 3, Jóhannes Berg Andrason 3, Arnar Huginn Ingason 3/2, Arnar Steinn Arnarsson 2, Benedikt Elvar Skarphéðinsson 1, Styrmir Sigurðsson 1, Hjalti Már Hjaltason 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 11, 33,3%. Einar Rafn Magnússon 0.
Öll tölfræði leiksins er á HBStatz.
Staðan og næstu leikir í Olísdeild karla.