- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Selfyssingar mæta bjartsýnir til leiks gegn Jeruzalem

Mynd/Poto-Pilka Ivan Pilát
- Auglýsing -

„Það er svolítið erfitt að meta styrkleika liðsins sem er skipað blöndu af yngri leikmönnum og eldri og reynslumeiri. Ég tel okkur eiga möguleika,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss sem mætir í kvöld slóvenska liðinu RK Jeruzalem Ormos í annarri umferð Evrópbikarkeppninnar í Sethöllinni á Selfoss. Flautað verður til leiks klukkan 19.30. Um er að ræða fyrri viðureign liðanna. Sú síðari verður í Slóveníu eftir viku.


„Ég hef séð upptökur með leikjum liðsins. Út frá þeim er svolítið erfitt að slá einhverju föstu um getu þess. Það leikur dæmigerðan handbolta fyrir þetta svæði, mikið um klippingar auk þess sem liðið virðist leika sex núll vörn. Miðað við þær ályktanir sem hægt er að draga af þessu þá tel ég okkur eiga ágæta möguleika til að vinna heimaleikinn,“ sagði Halldór Jóhann.


RK Jeruzalem Ormos hafnaði í fjórða sæti efstu deildar í Slóveníu á síðasta tímabili. Á þessu keppnistímabili hefur liðið átt á brattann að sækja og hefur tapað fjórum af fyrstu fimm leikjunum.

Árni Steinn kemur inn í hópinn

Árni Steinn Steinþórsson kemur inn í lið Selfoss í dag eftir afar langa fjarveru. Hann hefur æft að krafti síðustu vikur. Halldór Jóhann segist gera sér vonir um að hann geti hlaupið eitthvað undir bagga. Eins er ljóst að Tryggvi Þórisson tekur þátt í sóknarleiknum jafnt sem varnarleiknum. Trygggvi er óðum að ná sér á strik eftir meiðsli og aðgerð í framhaldinu í sumar. Atli Ævar Ingólfsson verður hinsvegar ekki með eins og kom fram á handbolta.is í vikunni. Atli er úr leik fram á nýtt ár eftir að hafa látið laga liðþófa í hné á dögunum.

Munar um aukakraft

„Það munar um að fá aukakraft inn í hópinn með mörgum ungum leikmönnum sem hafa orðið að fara í stærra hlutverk en þeim var endilega ætlað á þessum tímapunkti. Eins er Karolis Stropus að ná sér á strik aftur eftir meiðsli. Hann stóð sig hrikalega vel í Evrópuleikjunum í Tékkland.


Við förum bjartsýnir til leiks gegn RK Jeruzalem Ormos í kvöld. Fyrsti leikur í svona einvígi er alltaf ákveðin refskák. Við verðum að halda uppi hraðanum í leiknum á sama tíma og Slóvenarnir mun vafalaust vilja halda hraðanum niðri. Það er það skemmtilega við Evrópukeppnina. Maður fær öðruvísi leiki en í deildinni heima. Ný reynsla sem gefur mönnum mikið,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon sem treystir á að íbúar Selfoss og nærsveita troðfylli Sethöllina á leiknum í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -