- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Sex marka tap fyrir Pólverjum í upphafsleik

Íslenska landsliðið sem tók þátt í leiknum í Hamri í dag. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna tapaði fyrir pólska landsliðinu fyrsta leik sínum á fjögurra liða alþjóðlegu móti í Hamar í Noregi í dag, 29:23. Pólverjar voru með fjögurra marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 14:10. Næsti leikur Íslands á mótinu verður á móti heims- og Evrópumeisturum Noregs í Hákonshöll í Lillehammer á laugardaginn. Flautað verður til leiks klukkan 15.45.


Andrea Jacobsen skoraði fyrsta mark leiksins í dag á upphafsmínútunni. Framan af hafði íslenska liðið í fullu tré við það pólska en upp úr fyrri hálfleik tóku leiðir að skilja. Pólverjar breyttu stöðunni úr 7:8 í 7:13, á skömmum tíma. Af harðfylgi tókst að minnka muninn í þrjú mörk, 10:13. Minnstu munaði að íslenska liðinu tækist að minnka muninn í tvö mörk á síðustu sekúndum hálfleiksins. Tækifærið gekk úr greipum þegar ruðningur var dæmdur. Pólska liðið brunaði fram og skoraði 14. markið rétt áður en leiktíminn var úti.

Byrjun síðari hálfleiks var erfið. Pólska liðið komst átta mörkum yfir, 20:12, eftir um 10 mínútur. Eftir það var áfram á brattann að sækja þótt það tækist að koma í veg fyrir stórt tap með góðum lokaspretti. Sandra Erlingsdóttir skoraði 23. markið á síðustu sekúndum viðureignarinnar.

(Myndir frá leiknum úr safni HSÍ)

Íslenska liðið gerði sig sekt um of mörg einföld mistök í leiknum, s.s. slakar sendingar leikmanna á milli auk þess sem opin færi voru illa nýtt. Aðeins var eitt mark skorað úr hornum þótt færin vantaði ekki.

Fyrsti landsleikur – fyrsta markið

Allir 16 leikmenn íslenska liðsins sem voru á skýrslu fengu tækifæri til þess að taka þátt í leiknum. Síðust kom Katla María Magnúsdóttir inn á þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Hún var að leika sinn fyrsta A-landsleik.

Elísa Elíasdóttir skoraði sitt fyrsta mark fyrir A-landsliðið síðla leiks.

Mörk Íslands: Sandra Erlingsdóttir 4, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 4/4, Andrea Jacobsen 4, Thea Imani Sturludóttir 3, Díana Dögg Magnúsdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Sunna Jónsdóttir 1, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1, Lilja Ágústsdóttir 1.
Varin skot: Elín Jóna Þorsteinsdóttir 8, 26% – Hafdís Renötudóttir 2, 25%.

Mörk Póllands: Aleksandra Rosiak 5, Magda Balsam 4/2, Monika Kobylinska 3/1, Paulina Masna 3, Karolina Kochaniak 3, Marlena Urbanska 3,Mariola Wiertelak 2, Aleksandra Anastazja Zimny 1, Sylwia Matuszczyk 1, Adrianna Gorna 1, Aleksandra Tomczyk 1, Daria Michalak 1, Paulina Uscinowicz 1.
Varin skot: Adrianna Placzek 11, 33% – Barbara Zima 0.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

Tölfræði HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -